Markaður með leigubíla býr við alvarlegar samkeppnishindranir. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Þar gilda lögbundnar aðgangshindranir sem takmarka nýliðun og samkeppni. Hann segir tímabært að þessi atriði verði tekin til endurskoðunar svo að eðlilegt samkeppnisumhverfi myndist.

Þessu eru Sæmundur Kristján Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, og Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR, ósammála. Telur Sæmundur að ýmsar hættur geti verið til staðar með auknu frjálsræði og þetta gæti orðið kjörinn vettvangur til að stunda eiturlyfjasölu og alls konar glæpamennsku.

Spurður hvort hann teldi hætt við því að slík starfsemi yrði stunduð af bílstjórum leigubifreiða ef fleirum yrði hleypt inn á leigubílamarkað segir Sæmundur: „Þú getur rétt ímyndað þér maður. Hverjir heldur þú að yrðu farnir að stunda hér leiguakstur? Hvað erum við að heyra alltaf, með nauðganir og hitt og þetta og svarta sjóræningjastarfsemi. Eru ekki mörg dæmi þess að menn eru að lokka konur upp í bíla hér um helgar?“

Sæmundur segir reynslu annarra, eins og til dæmis Norðmanna, vera mjög slæma af auknu frjálsræði. „Ég segi ekki annað en það að ef það á að hleypa þessu bara í frjálsræðið að þá er verulega vegið að öryggi borgaranna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .