Meira en tvær vikur eru liðnar frá því að kynntar voru tillögur viðræðunefndar fjármálaráðherra og ráðgjafa lífeyrissjóða um uppgjör HFF-bréfa sem er ætlað að greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs, gamla Íbúðalánasjóðs. Enginn lífeyrissjóður gefur upp endanlega afstöðu til tillögunnar að svo stöddu.
Í tillögunum felst að kröfur samkvæmt HFF-bréfum, sem metnar eru á 651 milljarð króna, verði efndar með því að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi til uppgjörs ný ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarðar króna, önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 milljarðar, og 73 milljarða króna í reiðufé, þar af evrur að andvirði 55 milljarðar króna.
Boðað hefur verið til fundar skuldabréfaeigenda sem verður haldinn kl. 16 þann 10. apríl næstkomandi. Þar verða tillögurnar lagðar fyrir skuldabréfaeigendur en þörf er á samþykki 75% kröfuhafa svo að hún hljóti brautargengi.
Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn í byrjun vikunnar á alla lífeyrissjóði um hvort þeir hefðu mótað afstöðu til tillögunnar og ef svo, hvort þeir hyggist greiða atkvæði með eða á móti henni.
Flestir sjóðir segjast enn vera með tillöguna til skoðunar og nokkrir tilgreindu að endanleg ákvörðun verði tekin á stjórnarfundi í sömu viku og fundur skuldabréfaeigenda fer fram.
Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu, og Haukur Jónsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja, segjast báðir eiga frekar von á því að stjórnir sjóðanna tveggja samþykki tillöguna.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun, þar sem m.a. er fjallað um helsta álitaefnið við tillöguna, í Viðskiptablaði vikunnar. Nálgast má svör sjóðanna hér.