Bolt tilkynnti á dögunum að það hefði opnað rafhlaupahjólaleigu í Reykjavík. Fyrst um sinn verða 800 Bolt 5-rafhlaupahjól í Reykjavík og þurfa ökumenn að vera 16 ára eða eldri til að geta nýtt sér þjónustuna, eins og gengur og gerist með slík ökutæki.
Verðskrá Bolt hefur vakið athygli, en ökumenn greiða fimmtán krónur á mínútuna til að leigja Bolt rafhlaupahjól, og þá rukkar Bolt ekkert startgjald ólíkt hinum tveimur rafhlaupahjólaleigunum á Íslandi, þeim Hopp og Zolo.
Spurður hvort að verðskrá Bolt sé sjálfbær til lengri tíma litið segir Martin Tansøy, rekstrarstjóri Bolt, að svo sé líklega ekki. Félagið vilji hins vegar koma inn á markaðinn af krafti og að sem flestir fái að kynnast þjónustunni.
„Þetta eru augljóslega ekki sjálfbær verð, og við munum þurfa að aðlaga verðlagninguna seinna meir til að finna þetta jafnvægi sem hentar bæði okkur og viðskiptavininum. En við byrjum á þessari verðskrá og munum halda henni óbreyttri í þónokkurn tíma, líklega fram á næsta ár. Við teljum að með þessari verðskrá getum við náð umtalsverðri markaðshlutdeild á Íslandi á skömmum tíma. Við viljum einnig tryggja góða nýtingu á flotanum, sem er mikilvægt fyrir okkur.“
Hann bætir við að stefna Bolt sé frekar að ná fram góðri nýtingu flotans með lægra verði fremur en að hjólin séu lítið notuð vegna hærri verðlagningar.
„Þegar litið er til verðlagningar Hopp og Zolo, þá tel ég að báðir aðilar gætu lækkað verðin aðeins en samt hagnast í krafti fleiri farþega. En aukin notkun þýðir auðvitað meiri kostnaður vegna viðhalds og rafhlöðunotkunar, svo þetta er ákveðin jafnvægislist.“
Spurður hvort komi til greina síðar að stækka þjónustusvæðið segir Martin að Bolt horfi alltaf til þess að stækka.
„Eftir því sem við lærum meira á markaðinn og á notkunina í öðrum bæjum, þá sjáum við fram á að stækka þjónustusvæðið svo lengi sem það borgar sig fjárhagslega.“
Nánar er rætt við Martin í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.