Samlagsfélagið Janus heilsuefling, sem er í eigu Janusar Friðriks Guðlaugssonar, skilaði mestum hagnaði samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins í flokki félaga með heilsutengdra starfsemi.

Hagnaður félagsins nam 36 milljónum miðað við greiddan tekjuskatt en rétt er þó að taka fram að um er að ræða áætlun Skattsins og því gæti raunverulegur hagnaður verið annar. Launagreiðslur námu 161 milljón samkvæmt greiddu tryggingagjaldi.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birtir.

Félag Einars Einarssonar eða Gillz eins og hann er gjarnan kallaður, Fjarþjálfun slf., var í efsta sæti listans í úttekt Viðskiptablaðsins í fyrra en hann félagið færist niður um þrjú sæti í ár. Hagnaður félagsins árið 2023 nam 22 milljónum, samanborið við 29 milljónir árið áður, og launagreiðslur námu 8 milljónum.

Alls eru 20 félög með heilsutengda starfsemi á lista Viðskiptablaðsins í ár en samanlagður hagnaður umræddra félaga nam 317 milljónum króna og launagreiðslur námu 502 milljónum. Meðal annarra félaga á listanum er félag í eigu knattspyrnukonunnar Margrétar Láru Viðarsdóttur og eiginmanns hennar, Einars Arnar Guðmundssonar, sem og félag Gunnars Nelson og félag Annie Mistar Þórisdóttur.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í gærmorgun nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.