Samlagsfélagið Janus heilsuefling, sem er í eigu Janusar Friðriks Guðlaugssonar, er í efsta sæti í úttekt Viðskiptablaðsins í flokki félaga með heilsutengdra starfsemi. Áætlun skattsins miðaði við að félagið greiddi 21,6 milljónir króna í tekjuskatt.

Samkvæmt því hefði hagnaður félagsins numið 36 milljónum króna en í raun hagnaðist félagið um 14 milljónir króna. Launagreiðslur námu 161 milljón samkvæmt greiddu tryggingagjaldi.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birtir.

Félag Einars Einarssonar eða Gillz eins og hann er gjarnan kallaður, Fjarþjálfun slf., var í efsta sæti listans í úttekt Viðskiptablaðsins í fyrra en hann félagið færist niður um þrjú sæti í ár. Hagnaður félagsins árið 2023 nam 22 milljónum, samanborið við 29 milljónir árið áður, og launagreiðslur námu 8 milljónum.

Alls eru 20 félög með heilsutengda starfsemi á lista Viðskiptablaðsins í ár en samanlagður hagnaður umræddra félaga nam 317 milljónum króna og launagreiðslur námu 502 milljónum. Meðal annarra félaga á listanum er félag í eigu knattspyrnukonunnar Margrétar Láru Viðarsdóttur og eiginmanns hennar, Einars Arnar Guðmundssonar, sem og félag Gunnars Nelson og félag Annie Mistar Þórisdóttur.

Leiðrétt: Raunverulegur hagnaður Janusar heilsueflingar nam 14 milljónum króna en ekki 36 milljónum, eins Viðskiptablaðið reiknaði út samkvæmt áætlun Skattsins. Það hefur nú verið leiðrétt.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í gærmorgun nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.