Knattspyrnufélögin tólf sem léku í Bestu deild karla síðasta sumar voru rekin með samtals 518 milljóna króna hagnaði á síðasta ári.

Til samanburðar voru liðin sem léku í Bestu deild karla árið 2023 alls rekin með 29 milljóna hagnaði það árið. Samanlagðar tekjur félaganna námu rúmum 5,8 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um meira en milljarð á milli ára.

Þetta kemur fram í ársreikningum félaganna fyrir árið 2024.

Víkingar voru með langmestu tekjur allra liða í fyrra og slógu met í þeim efnum með tæplega 1,3 milljarða króna veltu.

Blikar koma þar á eftir með 738 milljóna króna veltu. Minni tekjur milli ára skýrast að öllu leyti af talsvert lægri tekjum vegna þátttöku í Evrópukeppni. Félagið fékk samtals 270 milljónir króna vegna þátttöku á mótum, þ.m.t. Evrópukeppni, samanborið við 640 milljónir árið 2023 þegar félagið komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Á sama tíma og heildartekjur Blika drógust saman um 357 milljónir milli ára minnkuðu rekstrargjöldin einungis um 138 milljónir milli ára. Fyrir vikið skiluðu Blikar 104 milljóna króna tapi í rekstrinum á síðasta ári samanborið við 105 milljóna króna hagnað árið áður.

Í gegnum tíðina hefur Breiðablik fengið drjúgar tekjur af sölu leikmanna til erlendra liða. Félagaskiptatekjur námu 120 milljónum króna á síðasta ári, sem nemur 16% af heildartekjum knattspyrnudeildar Breiðabliks á árinu.

Til samanburðar námu tekjurnar 107 milljónum árið áður. Þegar litið er til síðastliðinna fimm ára, frá 2020-2024, nema tekjur Breiðabliks vegna sölu á leikmönnum tæplega hálfum milljarði króna.

Þess ber jafnframt að geta að Knattspyrnudeild Breiðabliks fékk 200 milljóna arf frá Guðmundi Óskarssyni, dyggum stuðningsmanni og fyrrverandi stjórnarmanni félagsins, árið 2022.

Í ársreikningi segir að sjóðurinn hafi lagt fé til að efla styrktaraðstöðu leikmanna, til kaupa á mælitækjum, vegna uppbyggingar nýrrar aðstöðu fyrir þjálfara Knattspyrnudeildar og vegna aðgangshliða á Kópavogsvelli.

Staða sjóðsins í byrjun árs nam tæpum 210 milljónum króna. Kostnaður verkefnanna nam 30 milljónum og ávöxtun sjóðsins nam 18 milljónum. Því nam upphæð sjóðsins 198 milljónum króna í lok árs sem nemur 85% af eigið fé knattspyrnudeildar Breiðabliks. Af því eru 115 milljónir bundnar í verðbréfum en 83 milljónir inni á bankareikningum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.