Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 160,8 milljarða króna árið 2024, eða 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF), samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Þetta er umtalsverð aukning frá 2023 þegar hallinn nam 99,5 milljörðum eða 2,3% af VLF.

Þessi þróun bendir til þess að útgjöld hins opinbera aukist hraðar en tekjur en samkvæmt Hagstofunni jukust heildartekjur hins opinbera um 5,8% á milli ára en útgjöld hækkuðu um 8,6%.

Tekjur ríkissjóðs jukust um 4,9% og námu 1.432,9 milljörðum króna á meðan tekjur sveitarfélaga hækkuðu um 9,6% í 610,4 milljarða.

Heildartekjur almannatrygginga hækkuðu um 8,2% og voru 411,6 milljarðar króna. Rétt er að benda á að 99,2% tekna almannatrygginga renna úr ríkissjóði.

Mikil útgjaldaaukning og áhrif náttúruhamfara

Útgjöld hins opinbera námu 2.135,3 milljörðum króna árið 2024, eða 46,3% af VLF, samanborið við 45,3% árið 2023. Af þessum útgjöldum fóru 1.572,6 milljarðar í ríkissjóð, sem er 9,8% aukning frá fyrra ári. Sveitarfélögin vörðu 633,9 milljörðum, eða 6,5% meira en árið áður.

Náttúruhamfarirnar við Grindavík höfðu veruleg áhrif á útgjöld hins opinbera á árinu. Kostnaður vegna varnargarða og annarra úrræða birtist í tilfærsluútgjöldum og fjárfestingu sveitarfélaga.

Félagsleg tilfærsluútgjöld hækka en vaxtagjöld lækka

Félagsleg tilfærsluútgjöld til heimila hækkuðu um 10,4% milli ára og námu 324,3 milljörðum króna.

Vaxtagjöld hins opinbera drógust hins vegar saman um 19,6% og voru 186,6 milljarðar króna árið 2024.

Skuldir hins opinbera hækka enn frekar

Heildarskuldir hins opinbera voru 4.345,4 milljarðar króna í lok árs 2024, sem samsvarar 94,1% af VLF. Þetta er hækkun um 6,5% frá fyrra ári, þegar skuldirnar námu 4.079,5 milljörðum eða 94,0% af VLF.

Skuldir ríkissjóðs voru 3.748,6 milljarðar króna, eða 81,2% af VLF, á meðan skuldir sveitarfélaga námu 606,3 milljörðum, eða 13,1% af VLF.

Hrein peningaleg eign hins opinbera var neikvæð um 1.731,9 milljarða króna í árslok 2024, sem samsvarar 37,5% af VLF. Mun þetta vera verri staða en árið áður, þegar sama hlutfall var 35,8%.

Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar sést að bæði skuldir og hallarekstur sé að vaxa samhliða sem gæti kallað á endurskoðun útgjaldastefnu stjórnvalda.

Þó að vaxtagjöld hafi lækkað eru aukin félagsleg útgjöld og áhrif náttúruhamfara þættir sem ýta undir frekari útgjaldaaukningu.

Ef útgjöld halda áfram að vaxa hraðar en tekjur mun hallarekstur hins opinbera að öllum líkindum dýpka á komandi árum.