Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028 er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði um 48,3 milljarðar króna árið 2024. Áætlað er að ríkissjóður verði rekinn með halla fram til ársins 2028.
Áætlað er að halli ríkissjóðs verði 38,4 milljarðar árið 2025 og um 19,9 milljarðar árið 2026. Gert er ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs verði rétt undir núlli árið 2027 en verði jákvæð um 4,2 milljarða árið 2028.
Til samanburðar var ríkissjóður rekinn með 132 milljarða króna halla í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.
Bjarni einblínir á frumjöfnuðinn
Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að áætlað sé að frumjöfnuður verði jákvæður um 24 milljarða í ár og verði því 74 milljörðum betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Í jákvæðum frumjöfnuði felst að tekjur ársins eru hærri en útgjöld að frátöldum vaxtatekjum og -gjöldum.
„Það yrði í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem frumjöfnuður er jákvæður og næst sá áfangi ári fyrr en síðasta fjármálaáætlun gerði ráð fyrir.“
Árið 2024 er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði 48 milljarða króna í vexti auk 49 milljarða í reiknaða vexti af ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum og verðbætur.
„Til þess að draga úr vaxtabyrði er áhrifamest að róa að því öllum árum að halda verðbólgu í skefjum og skuldum sem lægstum. Undir lok áætlunarinnar er gert ráð fyrir að frumjöfnuður verði jákvæður um 1,3% af VLF og skuldir ríkissjóðs verði komnar niður í 30% af VLF.“
Aðhaldskrafan hækkuð
Í tilkynningunni segir að til að stuðla að því að ná verðbólgunni niður hefur ríkisstjórnin tvöfaldað almenna aðhaldskröfu hjá hinu opinbera úr 1% í 2%, utan þess að aðhaldskrafa á skóla verður 0,5%. Jafnframt verði sérstakt viðbótarprósent aðhalds sett á aðalskrifstofur Stjórnarráðsins.
Tekið er þó fram að lögregluembætti verði undanskilin aðhaldskröfu á árunum 2024–2025 og fangelsi, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir auk almanna- og sjúkratrygginga undanskilin út áætlunartímabilið.
Endurráða ekki í helming starfa þeirra sem fara á eftirlaun
Þá segir að samhliða aukinni stafvæðingu hjá stofnunum myndist svigrúm til þess að hagræða samhliða starfsmannaveltu.
„Í því samhengi má nefna að ef ákveðið yrði að endurráða ekki í helming starfa þeirra sem fara á eftirlaun á næstu fimm árum, að frátöldu framlínustarfsfólki, gæti hagræðingin numið um 7 milljörðum á ári uppsafnað í lok tímabilsins.“
Aukinn styrkur til háskóla og nýsköpunarfyrirtækja
Ríkisstjórnin mun leggja einn milljarð króna í sérstaka styrkingu háskólastigsins „sem fer stigvaxandi í 2 [milljarða] á tímabilinu“. Jafnframt verða framlög vegna aukinnar áherslu á verknám aukin og nema við lok tímabilsins 600 milljónum.
Þá hækkar framlag til nýsköpunarfyrirtækja um 1,9 milljarða króna árið 2024 „og áður tímabundið fjármagn í sjóði gert varanlegt“.
Einnig kemur fram að á tímabili áætlunarinnar verði 3 milljarðar króna veittir í auknar rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar og 2,2 milljarðar í eftirlit með fiskeldi.
Þá verður sérstaklega varið 750 milljónum króna í varnartengd verkefni fyrir Úkraínu á næsta ári líkt og á yfirstandandi ári.