Afkoma heildarsamstæðu ríkisins á árinu 2024 var neikvæð um 55,9 milljarða króna, samanborið við 81,4 milljarða árið 2023, samkvæmt ríkisreikningi sem var birtur í gær.

Rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt á grunni reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli (GFS)‏. Til að bera afkomu ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga þarf því að aðlaga niðurstöðu ríkisreiknings að hagskýrslustaðlinum (GFS).

Á grunni GFS var í fjárlögum ársins 2024 gert ráð fyrir að heildarafkoma yrði neikvæð um 51 milljarð króna. Síðasta áætlun ársins í desember gerði ráð fyrir 75 milljarða halla. Niðurstaða ársins reyndist neikvæð um 62 milljarða króna.

Þá var frumjöfnuður jákvæður um 31 milljarð en var áætlaður jákvæður 25 milljarða króna samkvæmt samþykktum fjárlögum.

Tekjur ríkissjóðs námu 1.425 milljörðum króna og rekstrargjöld 1.428 milljörðum króna í fyrra samkvæmt ríkisreikningi. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 57 milljarða króna. Matsbreytingar eigna voru neikvæðar um 8 milljarða og hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins var jákvæð um 12 milljarða.

Heildareignir í árslok 2024 voru 5.983 milljarðar króna, skuldir 5.815 milljarðar og eigið fé 168 milljarðar króna.

Daði: Ekki nóg að halda aftur af útgjöldum

„Árangur í ríkisfjármálum krefst aga, forgangsröðunar og skýrrar sýnar á það hvert við ætlum okkur. Við sjáum merki um stöðugleika og batnandi afkomu ríkissjóðs, þrátt fyrir áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir,“ segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.

„En vegferðinni er ekki lokið. Við höfum sett okkur markmið um betri nýtingu fjármuna, traustari grunn undir opinbera þjónustu og öfluga innviðauppbyggingu sem styður við verðmætasköpun. Það er ekki nóg að halda aftur af útgjöldum því við verðum einnig að fjárfesta skynsamlega og tryggja að hver króna nýtist vel.

Með fjármálastjórn sem byggst á festu og langtímahugsun leggjum við grunn að bættum lífskjörum, minni verðbólgu, lægri vöxtum og sterkari stoðum undir velferð allra landsmanna. Ríkisreikningur ársins staðfestir að við erum á réttri leið.“