Gert er ráð fyrir að 89 milljarða króna halli verði á heildarafkomu ríkissjóðs á næsta ári eða sem samsvarar 2,3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun kemur fram að gangi sú áætlun eftir verði afkoman 97 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2022.

„Um fjórðung af þessum bata í afkomunni í samanburði við fyrri fjárlög má rekja til aðgerða gegn þenslu sem samþykkt voru við síðari umræðu fjármálaáætlunar, en bein áhrif þeirra nema um 25–30 [milljörðum króna], eða 0,7% af VLF, árið 2023.“

Sjá einnig: Ríkissjóður rekinn með halla út 2027

Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ráð fyrir að halli ríkissjóðs á yfirstandandi ári nemi um 140 milljörðum króna „sem er 45 ma.kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2022 og nemur batinn því 95 ma.kr. frá þeirri áætlun“.

Halli á rekstri ríkissjóðs nam um 8% af VLF árin 2020 og 2021 sem hafði í för með sér að skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál hækkuðu úr 21,8% af VLF í árslok 2019 upp í 33,4% af VLF í árslok 2021.

Tekjuáætlun gerir ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði 1.117 milljarðar króna árið 2023 eða 28,9% af VLF. Í frumvarpinu kemur fram að fjárhæðin sé 165 milljörðum hærri en áætlunin í fjárlögum ársins 2022.

„Tekjuáætlunin er unnin á nafnvirði og má því rekja hluta tekjuaukans til aukinnar verðbólgu en hagfelldari þjóðhagsforsendur og grunnáhrif fyrra árs hafa einnig töluverð áhrif til hækkunar.“

Sjá einnig: Opinber gjöld hækki um 7,7%

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2023 eru áætluð 1.206 milljarðar eða 31,2% af VLF. Um er að ræða rúmlega 1% hækkun heildarútgjalda í samanburði við áætlun fjárlaga ársins 2022 þegar leiðrétt hefur verið fyrir áætluðum launa- og verðlagsbótum.