Gert er ráð fyrir að tæplega 41 milljarðs króna halli verði á heildarafkomu ríkissjóðs, eða sem samsvarar 0,8% af VLF, í fjárlagafrumvarpinu sem Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti á fréttamannafundi í morgun.
Til samanburðar gerði fjármálaáætlun 2025-2029 að halli ríkissjóðs á næsta ári yrði í kringum 25 milljarðar króna.
Þá kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins að halli á rekstri ríkissjóðs í ár er áætlaður um 57 milljarðar króna.
Ráðuneytið áætlar að frumjöfnuður ríkissjóðs á næsta ári, þ.e. afkoma án vaxtagjalda og tekna, verði jákvæður um rúmlega 36 milljarða króna sem er um 4 milljarða bati milli ára.
Áætlað er að skuldir ríkissjóðs, á mælikvarða skuldareglu laga um opinber fjármál, verði í lok næsta árs rúmlega 31% af vergri landsframleiðslu (VLF) og að hlutfallið lækki um 0,7% af VLF milli ára.
Áhersla á „hóflegan raunvöxt útgjalda“
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að í fjárlagafrumvarpinu sé áhersla lögð á „hóflegan raunvöxt útgjalda“ og að hagrætt sé í þágu viðkvæmra hópa.
Til viðbótar almennri aðhaldskröfu og öðrum útgjaldalækkunum sem tilgreindar eru í fjármálaáætlun sé nú búið að útfæra niður á einstaka gjaldaliði 9 milljarða króna afkomubætandi ráðstafanir sem gert var ráð fyrir í áætluninni.
Samanlagt eiga þessar breytingar að skila um 29 milljarða króna lækkun útgjalda á næsta ári samanborið við fyrri áætlanir.
„Verður þetta að hluta nýtt til forgangsröðunar nýrra og brýnna verkefna.“