Hampiðjan hagnaðist um 14,3 milljónir evra á síðasta ári, eða sem nemur rúmum tveimur milljörðum króna miðað við meðalgengi krónunnar gagvart evru á árinu 2022.
Til samanburðar nam hagnaður félagsins tæpum 17 milljónum evra árið áður, og dróst því saman um 15% á milli ára.
Velta Hampiðjunnar jókst um 20 milljónir evra á milli ára og nam 193,8 milljónum evra, eða sem nemur um 27,6 milljörðum króna miðað við meðalgengið á árinu. Í tilkynningu segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri, að hluti söluaukningarinnar hafi verið vegna verðlagshækkana. Hærra hráefnis- og orkuverð hafi þar spilað stórt hlutverk.
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2023 vegna rekstrarársins 2023 verði greidd 1,63 krónur á hlut í arð til hluthafa, eða 900 milljónir króna.
Hampiðjan hefur verið skráð á First North markaðinn frá árinu 2007. Nú er að verða breyting á því, en Hampiðjan stefnir á skráningu á aðalmarkað Nasdaq Iceland nú í vor. Ætlar félagið að bjóða út aukið hlutafé til að greiða niður skuldir.
„Mørenot er töluvert skuldsett og fjármagna þarf frekari uppbyggingu og afkastagetu Hampidjan Baltic til að geta sinnt þörf Mørenot fyrir net, kaðla og ofurtóg,“ segir Hjörtur Erlendsson forstjóri félagsins.