Hagnaður Hampiðjunnar á öðrum ársfjórðungi námu 5,4 milljónum evra, eða sem nemur ríflega 810 milljónum króna, sem samsvarar 5% lækkun frá sama tímabili í fyrra. Hampiðjan birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Hagnaður Hampiðjunnar á öðrum ársfjórðungi námu 5,4 milljónum evra, eða sem nemur ríflega 810 milljónum króna, sem samsvarar 5% lækkun frá sama tímabili í fyrra. Hampiðjan birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Sala félagsins á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 6,2% frá sama tímabili í fyrra og nam 13 milljörðum króna.
„Eftir ágætan fyrsta ársfjórðung kom fram sölutregða á öðrum ársfjórðungi í mörgum löndum sem við störfum í við N-Atlantshaf og það var einungis á Íslandi og í Skotlandi sem sala jókst að einhverju marki á þessum fjórðungi,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
„Annar ársfjórðungur ársins varð því undir væntingum og salan um 6,2% lægri miðað við sama ársfjórðung síðasta árs og EBITDA ársfjórðungsins var 13,6% miðað við 14,3% á sama tímabili í fyrra.“
Verkfall lamaði starfsemi færeysks dótturfélags
Hjörtur segir erfitt að benda á eina ákveðna ástæðu þeirrar sölutregðu sem gildir fyrir Norður-Atlantshafið aðra en þá að kostnaður er almennt hækkandi og vaxtabyrði fyrirtækja þyngri.
Aðrar ástæður samdráttar séu hins vegar skýrari hjá fyrirtækjum samstæðunnar í Færeyjum og Noregi.
„Í Færeyjum varð verkfall sem lamaði alveg starfsemi Vonin í fullar fjórar vikur, frá miðjum maí til miðs júní. Það hafði töluverð áhrif á rekstur fyrirtækisins og afhendingar á vörum og veiðarfærum, bæði í Færeyjum og Grænlandi, ásamt því að viðgerðir og viðhald á veiðarfærum lá niðri þessar vikur,“ segir Hjörtur.
Samstæðan gerir ráð fyrir að um þriðjungur af veltu færeyska dótturfélagsins, sem annars hefði verið meðan á verkfallinu stóð, hafi tapast en að aðrar sölur hafi frestast og muni skila sér fram á haustið.
Í afkomutilkynningu Hampiðjunnar er fjallað um að í Noregi lagði norska hafrannsóknarstofnunin til að þorskkvótinn í Barentshafi fyrir 2025 yrði minnkaður um 31% í kjölfar 20% minnkunar sem var í ár.
„Ákvörðun stjórnvalda um kvótaskerðingu næsta árs verður væntanlega tekin í desember en greinilegt er að þessar tillögur fiskifræðinga eru farnar að hafa áhrif á innkaup útgerðarfyrirtækja á veiðarfærum og viðhaldi þeirra eftir góðan fyrsta ársfjórðung. Þeir árgangar sem koma inn í veiðina 2026 og árin þar á eftir í Barentshafi virðast hinsvegar vera sterkari og vonir standa til að ekki þurfi að skera áfram niður á næstu árum en frekar bæta við.“
Áforma að sameina rekstur Morenot Ísland við Hampiðjan Ísland
Greint er frá því að fyrirhugað sé að sameina rekstur Morenot Ísland við Hampiðjan Ísland frá og með byrjun október.
Um mánaðamótin verður Voot, sem Hampiðjan á 68% hlut í, skipt upp í sölu á beitu fyrir línuveiðar og rekstrarvörur. Rekstrarvöruhlutinn færist til Hampiðjan Ísland og leggst þar við rekstrarvörudeildina sem er þar fyrir.
Samstæðan væntir þessa að af þessum tveimur breytingum hljótist töluverð hagræðing hér á Íslandi.