Hlutabréf Hampiðjunnar hafa hækkað um meira en 20% í 39 milljóna króna viðskiptum í dag en fyrirtækið tilkynnti í gærkvöldi um kaup á norska félaginu Mørenot ásamt áformum um skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar.
Gengi Hampiðjunnar, sem er skráð á First North-markaðinn, stendur nú í 112 krónum á hlut, samanborið við 93 krónur við lokun Kauphallarinnar í gær. Hlutabréf Hampiðjunnar hafa nú rétt aðeins úr kútnum eftir að hafa lækkað á síðustu þremur mánuðum.
Hamiðjan tilkynnti í gærkvöldi um kaup á Mørenot en rekstrarvirði norska félagsins er metið á 15,7 milljarða íslenskra króna í viðskiptunum. Stór hluti kaupverðsins verður greiddur með tæplega 51 milljónum nýjum hlutum í Hampiðjunni, sem munu samsvara 9,4% af heildarhlutafé sameinaðs félags.