Úrvalsvísitalan féll um hálft prósent í 2,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Lækkun vísitölunnar má einkum rekja til 2,8% lækkunar á gengi Marels sem stendur nú í 558 krónum á hlut. Tíu félög aðalmarkaðarins voru græn og fimm rauð í viðskiptum dagsins.
Icelandair hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,8% í 170 milljóna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 1,77 krónum á hlut og hefur nú hækkað um nærri 10% frá áramótum.
Flugfélagið Play, sem er skráð á First North-markaðnum, hækkaði einnig um 5,8% í 20 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 14,5 krónum á hlut og nálgast nú 14,6 krónu útgáfugengið í 2,3 milljarða króna hlutafjáraukningu félagsins í nóvember síðastliðnum.
Gengi Hampiðjunnar í hæstu hæðum
Hampiðjan, sem er einnig skráð á First North-markaðnum, hækkaði um 8% í 270 milljóna veltu, mest af félögum Kauphallarinnar í dag. Gengi Hampiðjunnar stendur nú í 133 krónum, eftir 13% hækkun í ár, og hefur ekki verið hærra frá því í febrúar 2022, þegar það fór hæst í 135 krónur.
Hlutabréfaverð Hampiðjunnar hefur alls hækkað um 43% frá því að félagið tilkynnti um miðjan nóvember um kaup á norska félaginu Mørenot í nærri 16 milljarða króna viðskiptum. Samhliða tilkynnti Hampiðjan um að félagið stefni á að færa sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar í ár.