Hampiðjan hf. hefur skrifað undir samning um kaup á 75,1% hlut í indverska neta- og kaðlaframleiðslufyrirtækinu Kohinoor Ropes Pvt. Ltd.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu marka kaupin tímamót í sögu Hampiðjunnar og styrkja stöðu fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum.
Kaupverðið er áætlað 21,9 milljónir evra og heildarkaupverð gæti farið í allt að 26 milljónir evra, sem samvarar um 3,8 milljörðum króna á gengi dagsins, ef rekstrarmarkmið fyrir árin 2025 og 2026 nást.
Mikilvægur þáttur í alþjóðlegri vöxtaráætlun
Með kaupunum eykur Hampiðjan getu sína til að framleiða vörur á hagstæðari kjörum og nýtir sér sterka stöðu Kohinoor á Indlandi og víðar í Asíu.
Kohinoor Ropes er einn stærsti neta- og kaðlaframleiðandi Indlands með ársframleiðslu á 14.300 tonnum af netum og köðlum. Fyrirtækið rekur þrjár verksmiðjur í Maharashtra-héraði á Indlandi og starfsmenn þess eru rúmlega 700 talsins.
Starfsmenn Kohinoor bætast við Hampiðjusamstæðuna sem mun þá telja um 2.700 manns. Fyrirtækið hefur verið mikilvægur birgir Hampiðjunnar um árabil, sérstaklega á sviði snúinna kaðla sem notaðir eru í veiðarfæri og fiskeldiskvíar.
„Kaupin á meirihlutanum í Kohinoor mun auka samkeppishæfni Hampiðjunnar og auka möguleika okkar á að vera skrefum á undan keppinautum okkar á næstu árum með þeirri hagræðingu sem hægt er ná fram á skömmum tíma.
Það er mikil tilhlökkun að vinna með þessu nýja dótturfélagi í framtíðinni og við væntum mikils af þessu samstarfi á næstu árum,” segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé Hampiðjunnar og 15 milljóna evra láni frá Arion banka. EBITDA-margfaldarinn miðað við rekstur ársins 2024 er 10,86 en ef rekstrarmarkmiðum fyrir árin 2025 og 2026 verður náð, verður greidd viðbótargreiðsla að fjárhæð 4,14 milljónir evra.
Ársvelta Kohinoor árið 2024 nam 26,2 milljónum evra og EBITDA 3,6 milljónum evra. Markmiðið fyrir árið 2025 er að EBITDA verði 4,45 milljónir evra og 5,52 milljónir evra árið 2026.
Samlegðaráhrif kaupa á Kohinoor eru margvísleg samkvæmt Hampiðjunni en fyrirtækið hefur yfirburðastöðu á mörkuðum í Asíu og Chile, sem er annað stærsta laxeldisland heims á eftir Noregi. Þá mun Kohinoor njóta góðs af alþjóðlegu söluneti Hampiðjunnar og víðtækri þekkingu hennar á fiskeldi og veiðarfærum.
Kostnaður við framleiðslu á Indlandi er almennt mun lægri en í Evrópu. Hráefniskostnaður er hagstæður, rafmagn er ódýrara og Kohinoor framleiðir hluta af eigin rafmagni með sólarsellum. Byggingarkostnaður er einnig lítill og stuttur byggingartími tryggir hraða uppbyggingu. Fyrirhugað er að byggja 20.000 fermetra verksmiðju á 12 hektara landi á næstu misserum til að flytja hluta af framleiðslu Hampiðjunnar frá Evrópu til Indlands.
„Tilflutningur á framleiðslu til Indlands mun fela í sér töluverða hagræðingu því framleiðsluumhverfið á Indlandi er afar hagstætt, land til bygginga fæst á hagstæðu verði og byggingakostnaður er brot af því sem er í Litháen svo ekki sé minnst á Ísland. Hráefniskostnaður er umtalsvert lægri en við eigum að venjast í Evrópu fyrir sömu tegundir af hráefnum,” segir Hjörtur.
„Þetta samstarf býður upp á ótrúlegt tækifæri fyrir Kohinoor. Með því að ganga í lið með Hampiðjunni, sem starfar á 78 mismunandi stöðum í 21 landi um allan heim, munum við hagræða starfsemi okkar, njóta góðs af háþróaðri tækni og auka sölu á alþjóðlegum mörkuðum. Sterk framleiðslugeta okkar ásamt víðtækri virðiskeðju Hampiðjunnar mun skapa öflug samlegðaráhrif sem mun auka vöxt okkar og samkeppnishæfni,” segir Nandkishor Baheti, framkvæmdastjóri Kohinoor.
Í hlutafjárútboði Hampiðjunnar sumarið 2023 var stefnt að frekari uppbyggingu í Litháen. Hins vegar hefur breytt rekstrarumhverfi í Evrópu orðið til þess að félagið beinir sjónum sínum í auknum mæli til hagstæðari markaða í Asíu.
Kaupin á Kohinoor eru liður í þeirri stefnu og markmiðið er að ná fram fullum áhrifum hagræðingar fyrir árslok 2025.