Hampiðjan hf. hefur skrifað undir samning um kaup á 75,1% hlut í ind­verska neta- og kaðla­fram­leiðslu­fyrir­tækinu Kohin­oor Ropes Pvt. Ltd.

Sam­kvæmt til­kynningu frá félaginu marka kaupin tíma­mót í sögu Hampiðjunnar og styrkja stöðu fyrir­tækisins á alþjóð­legum mörkuðum.

Kaup­verðið er áætlað 21,9 milljónir evra og heildar­kaup­verð gæti farið í allt að 26 milljónir evra, sem sam­varar um 3,8 milljörðum króna á gengi dagsins, ef rekstrar­mark­mið fyrir árin 2025 og 2026 nást.

Mikilvægur þáttur í alþjóð­legri vöxtaráætlun

Með kaupunum eykur Hampiðjan getu sína til að fram­leiða vörur á hagstæðari kjörum og nýtir sér sterka stöðu Kohin­oor á Ind­landi og víðar í Asíu.

Kohin­oor Ropes er einn stærsti neta- og kaðla­fram­leiðandi Ind­lands með árs­fram­leiðslu á 14.300 tonnum af netum og köðlum. Fyrir­tækið rekur þrjár verk­smiðjur í Maharashtra-héraði á Ind­landi og starfs­menn þess eru rúm­lega 700 talsins.

Starfs­menn Kohin­oor bætast við Hampiðju­sam­stæðuna sem mun þá telja um 2.700 manns. Fyrir­tækið hefur verið mikilvægur birgir Hampiðjunnar um ára­bil, sér­stak­lega á sviði snúinna kaðla sem notaðir eru í veiðarfæri og fisk­eldiskvíar.

„Kaupin á meiri­hlutanum í Kohin­oor mun auka sam­keppis­hæfni Hampiðjunnar og auka mögu­leika okkar á að vera skrefum á undan keppi­nautum okkar á næstu árum með þeirri hag­ræðingu sem hægt er ná fram á skömmum tíma.

Það er mikil til­hlökkun að vinna með þessu nýja dóttur­félagi í framtíðinni og við væntum mikils af þessu sam­starfi á næstu árum,” segir Hjörtur Er­lends­son, for­stjóri Hampiðjunnar.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kaupin verða fjár­mögnuð með eigin fé Hampiðjunnar og 15 milljóna evra láni frá Arion banka. EBITDA-marg­faldarinn miðað við rekstur ársins 2024 er 10,86 en ef rekstrar­mark­miðum fyrir árin 2025 og 2026 verður náð, verður greidd viðbótar­greiðsla að fjár­hæð 4,14 milljónir evra.

Ár­svelta Kohin­oor árið 2024 nam 26,2 milljónum evra og EBITDA 3,6 milljónum evra. Mark­miðið fyrir árið 2025 er að EBITDA verði 4,45 milljónir evra og 5,52 milljónir evra árið 2026.

Sam­legðaráhrif kaupa á Kohin­oor eru marg­vís­leg sam­kvæmt Hampiðjunni en fyrir­tækið hefur yfir­burðastöðu á mörkuðum í Asíu og Chile, sem er annað stærsta lax­eldis­land heims á eftir Noregi. Þá mun Kohin­oor njóta góðs af alþjóð­legu sölu­neti Hampiðjunnar og víðtækri þekkingu hennar á fisk­eldi og veiðarfærum.

Kostnaður við fram­leiðslu á Ind­landi er al­mennt mun lægri en í Evrópu. Hráefnis­kostnaður er hagstæður, raf­magn er ódýrara og Kohin­oor fram­leiðir hluta af eigin raf­magni með sólar­sellum. Byggingar­kostnaður er einnig lítill og stuttur byggingar­tími tryggir hraða upp­byggingu. Fyrir­hugað er að byggja 20.000 fer­metra verk­smiðju á 12 hektara landi á næstu misserum til að flytja hluta af fram­leiðslu Hampiðjunnar frá Evrópu til Ind­lands.

„Til­flutningur á fram­leiðslu til Ind­lands mun fela í sér tölu­verða hag­ræðingu því fram­leiðslu­um­hverfið á Ind­landi er afar hagstætt, land til bygginga fæst á hagstæðu verði og bygginga­kostnaður er brot af því sem er í Lit­háen svo ekki sé minnst á Ís­land. Hráefnis­kostnaður er um­tals­vert lægri en við eigum að venjast í Evrópu fyrir sömu tegundir af hráefnum,” segir Hjörtur.

„Þetta sam­starf býður upp á ótrú­legt tækifæri fyrir Kohin­oor. Með því að ganga í lið með Hampiðjunni, sem starfar á 78 mis­munandi stöðum í 21 landi um allan heim, munum við hag­ræða starf­semi okkar, njóta góðs af háþróaðri tækni og auka sölu á alþjóð­legum mörkuðum. Sterk fram­leiðslu­geta okkar ásamt víðtækri virðiskeðju Hampiðjunnar mun skapa öflug sam­legðaráhrif sem mun auka vöxt okkar og sam­keppnis­hæfni,” segir Nand­kis­hor Baheti, fram­kvæmda­stjóri Kohin­oor.

Í hluta­fjárút­boði Hampiðjunnar sumarið 2023 var stefnt að frekari upp­byggingu í Lit­háen. Hins vegar hefur breytt rekstrar­um­hverfi í Evrópu orðið til þess að félagið beinir sjónum sínum í auknum mæli til hagstæðari markaða í Asíu.

Kaupin á Kohin­oor eru liður í þeirri stefnu og mark­miðið er að ná fram fullum áhrifum hag­ræðingar fyrir árs­lok 2025.