Hampiðjan hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 4,63% í 250 milljóna króna viðskiptum. Stendur gengi bréfa félagsins nú í 113 krónum á hlut.
Félagið tilkynnti í dag um kaup á 75,1% hlut í indverska neta- og kaðlaframleiðslufyrirtækinu Kohinoor Ropes Pvt. Ltd.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu marka kaupin tímamót í sögu Hampiðjunnar og styrkja stöðu fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum.
Kaupverðið er áætlað 21,9 milljónir evra og heildarkaupverð gæti farið í allt að 26 milljónir evra, sem samsvarar um 3,8 milljörðum króna á gengi dagsins, ef rekstrarmarkmið fyrir árin 2025 og 2026 nást.
6 milljarða arðgreiðsla
Á eftir Hampiðjunni kemur SKEL fjárfestingafélag, en gengi bréfa félagsins hækkaði um tæp 4% í dag, í 323 milljóna króna viðskiptum.
Félagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær og hélt kynningarfund vegna uppgjörsins í morgun.
Stjórn félagsins leggur til að greiddir verði 6 milljarðar króna til hluthafa í tveimur greiðslum, að fjárhæð 3 milljarðar króna í hvort skipti.
Þá hefur félagið ákveðið að bjóða um 10-15% eignarhlut í Styrkási til sölu, en stefnt er að skráningu félagsins innan tveggja ára. SKEL á 63,4% hlut í Styrkási.
Lækka um 3% eftir ársuppgjör
Á hinum enda markaðarins lækkaði Sjóvá mest allra félaga á markaði í viðskiptum dagsins. Gengi bréfa félagsins lækkaði þannig um 3,21% í 295 milljóna króna veltu. Félagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær.
Þar kom m.a. fram að virði eignarhlutar tryggingarfélagsins í Controlant var fært niður um 77%.
Heildarvelta á markaði í dag nam 5,7 milljörðum króna. Þar af var mest velta með bréf Reita, sem nemur 838 milljónum króna.
Þar á eftir koma viðskipti með bréf Kviku banka sem námu 781 milljón króna.