Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% í 3,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf nítján félaga lækkuðu og þriggja hækkuðu í viðskiptum dagsins.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í dag þá voru töluverðar lækkanir á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í gærkvöldi og á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag.
Lækkanirnar hafa helst verið raktar til þess að Seðlabanki Bandaríkjanna gaf til kynna að miðað við núverandi sviðsmyndir muni hann líklega aðeins lækka stýrivexti í tvígang á næsta ári, en áður var gert ráð fyrir að hann myndi lækka vexti fjórum sinnum á næsta ári.
Sex félög lækkuðu um meira en tvö prósent í viðskiptum dagsins. Fasteignafélögin Eik og Reitir leiddu lækkanir en hlutabréfaverð þeirra lækkaði um 3,5% og 2,6% hjá hvoru félagi um sig.
Þá féll gengi hlutabréfa Hampiðjunnar um 2,3% í 22 milljóna veltu og stendur nú í 106,5 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Hampiðjunnar hefur nú fallið um 24% í ár og hefur ekki verið lægra síðan í nóvember 2022, eða um það leyti sem kaupin á Mørenot voru tilkynnt.
Hlutabréfaverð Amaroq Minerals, Skaga og Oculis lækkaði einnig um meira en tvö prósent í dag.
Þrjú félög hækkuðu í viðskiptum dagsins en þar af hækkaði hlutabréfaverð Marels mest eða um 2,3% í tæplega 290 milljóna veltu.
Hlutabréfaverð Skeljar, sem tilkynnti í gær um að samkomulag hefði náðst um sameiningu Samkaupa og matvörueininga Heimkaupa, hækkaði um hálft prósent í hundrað milljóna veltu og stendur nú í 18,9 krónum á hlut. Gengi hlutabréfa Skeljar hefur hækkað um 24% í ár.