Fimm fyrirtæki - Ölgerðin, Alvotech, Parlogis, Veritas og Safari - stefna á að byggja upp starfsemi á nýju atvinnusvæði á Hólmsheiði. Af því tilefni fóru forsvarsmenn þeirra og borgarstjóri á svæðið og handsöluðu lóðarvilyrði á þessu nýja athafnasvæði í gær.

Reykjavíkurborg áætlar að tekjur af sölu byggingarréttar og álagningu gatnagerðargjalda verði um 4,4 milljarðar króna, að því er segir í tilkynningu á vef borgarinnar.

Borgarráð hefur samþykkt lóðarvilyrðin og gert er ráð fyrir að deiliskipulag verði auglýst í október. Borgin segir að deiliskipulag muni taka mið af þörfum fyrirtækjanna og umhverfissjónarmiða.

„Með athafnasvæðinu á Hólmsheiði er fyrirtækjunum gert kleift að vaxa og dafna innan borgarmarkanna og undirtektirnar hafa verið frábærar! Það er sérstaklega ánægjulegt að borgin og þessi flottu fyrirtæki ganga í takt þegar kemur að því að gæta sérstaklega vel að náttúrunni á svæðinu,” segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.

Fimm valin í fyrsta fasa

Fyrirtækin voru valin eftir að auglýst var eftir áhugasömum aðilum fyrr á þessu ári og var ákveðið að ganga til samninga um lóðarvilyrði við fyrirtækin fimm í fyrsta fasa.

„Við val fyrirtækja var haft að leiðarljósi að starfsemi væri ekki mengandi, en gæta þarf sérstaklega að vatnsverndarsjónarmiðum og öðrum umhverfisþáttum vegna nálægðar við vatnsból. Kallað var eftir áhuga fyrirtækja áður en deiliskipulagsvinnu lyki til að hægt væri að fá þau að borðinu snemma í ferlinu til að auðveldara væri að mæta þörfum þeirra.“

Á Hólmsheiði áætlar Ölgerðin að reisa vatnsátöppunarverksmiðju sem nýtir vatn úr nærliggjandi brunni og vörudreifingarmiðstöð.

„Ölgerðin tekur enn eitt framfaraskref með fyrirhuguðum framkvæmdum á Hólmsheiði,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

„Hér viljum við reisa glæsilega vöru- og dreifingarmiðstöð sem mun auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri, en að auki horfum við til þess að reisa hér vatnsátöppunarverksmiðju fyrir Iceland Spring. Við þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn, í bókstaflegri merkingu, því vatnslind Iceland Spring er einmitt stutt frá og því stutt að sækja það áður en það heldur í langferðir á erlenda markaði. Hróður íslenska vatnsins berst æ víðar undir merkjum Iceland Spring og sala þess eykst jafnt og þétt þökk sé m.a. gæðum vatnsins hérlendis.“

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á Hólmsheiði hyggst ATP Holding þróa vöruhús fyrir Alvotech fyrir hráefni til lyfjaframleiðslu, húsnæði fyrir pökkun lyfja í „notenda umbúðir“ og kæligeymslur fyrir lyf. Auk þess eru til skoðunar möguleikar á húsnæði til geymslu á rannsóknar- og framleiðslutækjum á svæðinu.

Jóhann G. Jóhannsson, meðstofnandi og yfirmaður fjármála hjá Alvotech og Einar Þorsteinsson borgarstjóri
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Veritas mun byggja vöruhús fyrir heilbrigðisstarfsemi

Jón Björnsson, forstjóri Veritas og Einar Þorsteinsson borgarstjóri
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Parlogis hyggst reisa hátæknivætt vöruhús. Vöruhús Parlogis eru sérhæfð fyrir lyf, lækningatæki og heilbrigðisvörur og þaðan annast Parlogis dreifingu varanna til viðskiptavina um land allt.

„Á Hólmsheiði mun Parlogis reisa hátæknivætt vöruhús til að styðja við okkar mikilvæga hlutverk að tryggja landsmönnum aðgengi að lífsnauðsynlegum lyfjum og öðrum heilbrigðisvörum. Við erum mjög ánægð með að hafa verið valin úr hópi fyrirtækja til að taka þátt í uppbyggingu á þessu spennandi svæði sem jafnframt tryggir okkur svigrúm til framtíðarvaxtar“ segir Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis.

Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis og Einar Þorsteinsson borgarstjóri
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Safari hjól er ferðaþjónustufyrirtæki sem rekur meðal annars fjórhjólaferðir við Úlfarsárdal í dag. Hugmyndir félagsins eru að byggja upp viðburðaferðaþjónustu á svæðinu í góðum tengslum við útivistarsvæðin í kring.

„Safari hjól hefur tekið stórt skref í átt að framtíðarvexti með ákvörðuninni um að reisa nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar á Hólmsheiði,” segir Josh Friðriksson, framkvæmdastjóri Safari.

„Þetta æðislega svæði býður ekki aðeins upp á einstaka staðsetningu í nánu samneyti við náttúruna, heldur einnig frábæra innviði sem styðja við þróun og framfarir okkar til framtíðar. Með þessum áfanga sköpum við ný tækifæri fyrir vöxt fyrirtækisins með nýsköpun í vörum og þjónustu. Við erum ákaflega spennt fyrir þessu skrefi og þeirri spennandi framtíð sem framundan er.“

Friðrik Joshua Friðriksson, framkvæmdastjóri Safari og Einar Þorsteinsson borgarstjóri
© Aðsend mynd (AÐSEND)