Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var allt annað en skemmt yfir málflutningi samstarfsmanns síns á Alþingi, Sigurjóns Þórðarsonar, í umræðum um fjármálaáætlun á Alþingi sl. föstudag.

„Hann er algjörlega blankur. Hann hlustar ekki á neitt, kynnir sér ekki neitt og veit ekkert um hvað hann er að tala,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ummælin lét Guðlaugur Þór falla í andsvari við andsvar Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Flokks fólksins, í umræðum um fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030. Myndband af ræðunni má finna neðst í fréttinni.

Í fyrstu ræðu sinni gerði Guðlaugur Þór m.a. áform ríkisstjórnarinnar um að tengja örorku- og ellilífeyrisbætur við launavísitöluna að umfjöllunarefni. Benti Guðlaugur Þór m.a. á að örorkubætur séu nú 18% hærri en þær væru ef þær hefðu verið tengdar við launavísitöluna á tímum fyrri ríkisstjórnar og vísaði í minnisblað fjármálaráðuneytisins um frumvarpið.

Sigurjón svaraði ræðu Guðlaugs Þórs með því að segja að það væri áhugavert að heyra þingmann Sjálfstæðisflokksins hafa mestar áhyggjur af því að það verði eitthvað aukalega eftir í vasa lífeyrisþega, hvort sem það væri hjá eldri borgurum eða öryrkjum. Á sama tíma hafi þeir áhyggjur af því að það renni of mikið úr vösum þeirra sem hafa rétt til að veiða úr fiskveiðiauðlindinni. Þótti honum þetta merki um þá nýfrjálshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið fyrir á síðustu árum. Lítið sé gert fyrir hinn almenna borgara.

Þetta svar lagðist vægast sagt illa í Guðlaug Þór.

„Ég var hér að fara yfir bréf frá fjármálaráðuneytinu sem sýndi það að ef það hefði verið farið eftir þessum lögum þá væru bætur til öryrkja lægri, lægri, virðulegur forseti lægri! Skilur háttvirtur þingmaður þetta? Þær væru 18% lægri!

Svo bara kemur hann: „Já við viljum bara leiðrétta og svo er bara eitthvað fiskveiðidæmi þarna og sækja pening og bara. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki gera vel við þá sem minna mega sín.“ Þetta er bara tóm þvæla.

Þannig að ef að þetta frumvarp væru lög þá væru öryrkjar, miðað við launavísitöluna, með 18% lægri bætur. 18% lægri bætur!“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við:

„Þannig að ef flokkur háttvirts þingmanns hefði verið í ríkisstjórn á sínum tíma og sett þessi lög, þá væru bæturnar lægri. Þær væru lægri!“

Sagði Guðlaugur þetta mál sýna Flokk fólksins í réttu ljósi. Flokkurinn sé ekkert nema umbúðirnar.

„Þau geta ekki einu sinni kynnt sér hvað felst í þeirra eigin málum, geta ekki kynnt sér staðreyndir en segja bara nákvæmlega það sem þeim dettur í hug. Nákvæmlega það sem þeim dettur í hug – ekkert á bakvið það. Út af því fyrirkomulagi sem við höfum verið með, út af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd en ekki Flokkur fólksins, þá eru öryrkjar með hærri bætur,“ sagði hann og setti punkt við þrumuræðu sína sem sjá má í spilaranum hér að neðan.