Seðlabanki Íslands kærði úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar um að héraðsdómur ætti að dómkveðja matsmann í miskabótamáli Þorsteins Más Baldvinssonar gegn bankanum.
Munnlegur málflutningur fór fram á mánudaginn þar sem tekist var á um hvort Þorsteini verði heimilt að dómkveðja matsmann til að skoða þau gríðargögn sem bankinn safnaði um hann í tengslum við rannsókn á svokölluðu gjaldeyrismáli.
Dómstólar sögðu að Seðlabankinn hefði lagt til grundvallar ranga túlkun á refsiheimildum laga í gjaldeyrismálum og að afgreiðsla og málsmeðferð bankans hefði ekki verið í samræmi við lög.
Þorsteini voru dæmdar skaða- og miskabætur í kjölfarið og stjórnvaldssekt SÍ felld niður af Hæstarétti árið 2018. Í stað þess að eyða gögnum um Þorstein eftir niðurstöðu Hæstaréttar hélt Seðlabankinn þeim og afhenti héraðssaksóknara þau síðan nokkrum árum seinna.
Í febrúar í fyrra úrskurðaði Persónuvernd að varðveisla Seðlabankans á persónuupplýsingum um Þorstein hefði verið brot á lögum um persónuvernd.
Samkvæmt úrskurði Landsréttar, sem samþykkti kröfu Þorsteins um að dómkvaddur matsmaður myndi framkvæma matsbeiðni, er um að ræða ótilgreint magn af gögnum.
Hins vegar hefur komið fram í fjölmiðlum og í málflutningi að um sé að ræða að minnsta kosti sex þúsund gígabæt af gögnum sem eru á þremur hörðum diskum og bankinn geymdi um Þorstein, starfsmenn og viðskiptavini Samherja með ólögmætum hætti.
Eftir úrskurð Persónuverndar um brot Seðlabankans bauð Þorsteinn bankanum að ljúka málinu með því að greiða honum táknrænar bætur upp á nokkur hundruð þúsund krónur. Seðlabankinn hafnaði því og því stefndi Þorsteinn bankanum í febrúar á þessu ári.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni sagði Þorsteinn Már þetta sýna virðingarleysi Seðlabankans gagnvart fjármunum að halda málinu gangandi í dómskerfinu.
„Þeir ætla að þreyta menn og halda að þeir komist út úr málinu þannig. Það er algjört virðingarleysi fyrir fjármunum sem endurspeglast í þessu máli en fyrir mér endurspeglar þetta líka viðhorf þeirra til borgaranna,“ sagði Þorsteinn Már.
Þorsteinn krefst 2,2 milljóna í miskabætur en Seðlabankinn hefur tekið til varna með því að hafna því að í gögnunum séu að finna persónuupplýsingar um Þorstein. Því var óskað eftir að dómskvaddur matsmaður myndi rýna í gögnin og skila matsbeiðni um það. Héraðsdómur hafnaði því en Landsréttur úrskurðaði að það bæri að dómkveðja matsmann
Hörðu diskarnir eru nú í vörslu héraðssaksóknara. Um er að ræða mikið magn gagna og farið er fram á að matsmaður svari 14 nánar tilgreindum spurningum hvort þar á meðal séu persónuupplýsingar og eftir atvikum viðkvæmar persónuupplýsingar um Þorstein.
Í málflutningi í Hæstarétti sagði Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Seðlabankans, að það væri hlutverk matsmanna að meta fyrirliggjandi gögn í málinu en ekki að finna sönnunargögn.
Einnig væri það ekki hlutverk matsmanna að meta hvað væru persónuupplýsingar heldur væri það hluti af lögfræðilegu mati dómara. Hann sagði jafnframt að matsbeiðnin hefði komið of seint fram í málinu og því bæri Hæstarétti að hafna henni.
Magnús Óskarsson, lögmaður Þorsteins Más, sagði fyrir Hæstarétti að nauðsynlegt væri að maður með tæknikunnáttu myndi taka saman hvað væri að finna í tölvugögnunum og skila skýrslu en dómari mæti það svo á endanum hvort um væri að ræða persónuupplýsingar.
Magnús sagði Seðlabankann hafa viðurkennt við meðferð málsins hjá Persónuvernd að persónuupplýsingar um Þorstein væri að finna í gögnunum. Seðlabankinn hefði reynt að rökstyðja ítarlega hvers vegna hann hefði heimild til að vinna með slíkar persónuupplýsingar.
Vísaði lögmaðurinn til bréfa frá árinu 2021 þar sem Seðlabanki Íslands viðurkenndi að hafa haft undir höndum afrit af tölvupóstum starfsmanna Samherja, afrit af heimasvæðum og sameiginlegum svæðum starfsmanna en þarna væri einnig að finna upplýsingar um bankareikninga, eignir, skuldir og viðskipti Þorsteins Más.
Þegar Þorsteinn höfðaði miskabótamálið ákvað Seðlabankinn að viðurkenna ekki að í umræddum gögnum væru persónuupplýsingar um Þorstein Má þrátt fyrir úrskurð Persónuverndar. Lögmaður Þorsteins vitnaði jafnframt í bréf frá Seðlabankanum er bankinn hafnaði því að greiða Þorsteini miskabætur en þar sagði að „bótakrafan eigi rætur að rekja til varðveislu Seðlabankans á nánar tilgreindum persónugreinanlegum upplýsingum“.
Engu að síður hafnaði bankinn því að hafa haft persónuupplýsingar um Þorstein Má í héraði og hvatti lögmaður Þorsteins bankann til að falla frá þeirri málsástæðu. Þar sem það var ekki gert var óskað eftir að dómkveðja matsmann til að skoða gögnin og skila matsgerð en það er meðal annars ein leið til að framkvæma rannsókn í einkamáli.
Þegar matsbeiðnin var lögð fram til þess að skera úr um þetta atriði hafnaði Seðlabankinn henni og fór það ágreiningsefni alla leið upp í Hæstarétt. Hæstiréttur Íslands mun því á næstunni dæma um hvort dómkveðja megi matsmann en í kjölfar þess mun málarekstur miskabótamáls Þorsteins geta haldið áfram.