Seðla­banki Ís­lands kærði úr­skurð Lands­réttar til Hæstaréttar um að héraðs­dómur ætti að dóm­kveðja mats­mann í miska­bóta­máli Þor­steins Más Bald­vins­sonar gegn bankanum.

Munn­legur mál­flutningur fór fram á mánu­daginn þar sem tekist var á um hvort Þor­steini verði heimilt að dóm­kveðja mats­mann til að skoða þau gríðargögn sem bankinn safnaði um hann í tengslum við rannsókn á svo­kölluðu gjald­eyris­máli.

Dómstólar sögðu að Seðla­bankinn hefði lagt til grund­vallar ranga túlkun á refsi­heimildum laga í gjald­eyris­málum og að af­greiðsla og máls­með­ferð bankans hefði ekki verið í samræmi við lög.

Þor­steini voru dæmdar skaða- og miska­bætur í kjölfarið og stjórn­valds­sekt SÍ felld niður af Hæstarétti árið 2018. Í stað þess að eyða gögnum um Þor­stein eftir niður­stöðu Hæstaréttar hélt Seðla­bankinn þeim og af­henti héraðssaksóknara þau síðan nokkrum árum seinna.

Í febrúar í fyrra úr­skurðaði Persónu­vernd að varðveisla Seðla­bankans á persónu­upp­lýsingum um Þor­stein hefði verið brot á lögum um persónu­vernd.

Sam­kvæmt úr­skurði Lands­réttar, sem samþykkti kröfu Þor­steins um að dóm­kvaddur mats­maður myndi fram­kvæma mats­beiðni, er um að ræða ótil­greint magn af gögnum.

Hins vegar hefur komið fram í fjölmiðlum og í mál­flutningi að um sé að ræða að minnsta kosti sex þúsund gíga­bæt af gögnum sem eru á þremur hörðum diskum og bankinn geymdi um Þor­stein, starfs­menn og við­skipta­vini Sam­herja með ólög­mætum hætti.

Eftir úr­skurð Persónu­verndar um brot Seðla­bankans bauð Þor­steinn bankanum að ljúka málinu með því að greiða honum tákn­rænar bætur upp á nokkur hundruð þúsund krónur. Seðla­bankinn hafnaði því og því stefndi Þor­steinn bankanum í febrúar á þessu ári.

Í viðtali við Við­skipta­blaðið í vikunni sagði Þor­steinn Már þetta sýna virðingar­leysi Seðla­bankans gagn­vart fjár­munum að halda málinu gangandi í dóms­kerfinu.

„Þeir ætla að þreyta menn og halda að þeir komist út úr málinu þannig. Það er al­gjört virðingar­leysi fyrir fjár­munum sem endur­speglast í þessu máli en fyrir mér endur­speglar þetta líka viðhorf þeirra til borgaranna,“ sagði Þor­steinn Már.

Þor­steinn krefst 2,2 milljóna í miska­bætur en Seðla­bankinn hefur tekið til varna með því að hafna því að í gögnunum séu að finna persónu­upp­lýsingar um Þor­stein. Því var óskað eftir að dómskvaddur mats­maður myndi rýna í gögnin og skila mats­beiðni um það. Héraðs­dómur hafnaði því en Lands­réttur úr­skurðaði að það bæri að dóm­kveðja mats­mann

Hörðu diskarnir eru nú í vörslu héraðssaksóknara. Um er að ræða mikið magn gagna og farið er fram á að mats­maður svari 14 nánar til­greindum spurningum hvort þar á meðal séu persónu­upp­lýsingar og eftir at­vikum viðkvæmar persónu­upp­lýsingar um Þor­stein.

Í mál­flutningi í Hæstarétti sagði Steinar Þór Guð­geirs­son, lög­maður Seðla­bankans, að það væri hlut­verk mats­manna að meta fyrir­liggjandi gögn í málinu en ekki að finna sönnunar­gögn.

Einnig væri það ekki hlut­verk mats­manna að meta hvað væru persónu­upp­lýsingar heldur væri það hluti af lög­fræði­legu mati dómara. Hann sagði jafn­framt að mats­beiðnin hefði komið of seint fram í málinu og því bæri Hæstarétti að hafna henni.

Magnús Óskars­son, lög­maður Þor­steins Más, sagði fyrir Hæstarétti að nauð­syn­legt væri að maður með tæknikunnáttu myndi taka saman hvað væri að finna í tölvu­gögnunum og skila skýrslu en dómari mæti það svo á endanum hvort um væri að ræða persónu­upp­lýsingar.

Magnús sagði Seðla­bankann hafa viður­kennt við með­ferð málsins hjá Persónu­vernd að persónu­upp­lýsingar um Þor­stein væri að finna í gögnunum. Seðla­bankinn hefði reynt að rök­styðja ítar­lega hvers vegna hann hefði heimild til að vinna með slíkar persónu­upp­lýsingar.

Vísaði lög­maðurinn til bréfa frá árinu 2021 þar sem Seðla­banki Ís­lands viður­kenndi að hafa haft undir höndum af­rit af tölvupóstum starfs­manna Sam­herja, af­rit af heima­svæðum og sam­eigin­legum svæðum starfs­manna en þarna væri einnig að finna upp­lýsingar um banka­reikninga, eignir, skuldir og við­skipti Þor­steins Más.

Þegar Þor­steinn höfðaði miska­bóta­málið ákvað Seðla­bankinn að viður­kenna ekki að í um­ræddum gögnum væru persónu­upp­lýsingar um Þor­stein Má þrátt fyrir úr­skurð Persónu­verndar. Lög­maður Þor­steins vitnaði jafn­framt í bréf frá Seðla­bankanum er bankinn hafnaði því að greiða Þor­steini miska­bætur en þar sagði að „bótakrafan eigi rætur að rekja til varðveislu Seðla­bankans á nánar til­greindum persónu­greinan­legum upp­lýsingum“.

Engu að síður hafnaði bankinn því að hafa haft persónu­upp­lýsingar um Þor­stein Má í héraði og hvatti lög­maður Þor­steins bankann til að falla frá þeirri málsástæðu. Þar sem það var ekki gert var óskað eftir að dóm­kveðja mats­mann til að skoða gögnin og skila mats­gerð en það er meðal annars ein leið til að fram­kvæma rannsókn í einkamáli.

Þegar mats­beiðnin var lögð fram til þess að skera úr um þetta at­riði hafnaði Seðla­bankinn henni og fór það ágreinings­efni alla leið upp í Hæstarétt. Hæstiréttur Ís­lands mun því á næstunni dæma um hvort dóm­kveðja megi mats­mann en í kjölfar þess mun mála­rekstur miska­bóta­máls Þor­steins geta haldið áfram.