Hljóðupptaka af ræðu Jamie Dimon, forstjóra JPMorgan Chase, þar sem hann gagnrýnir fjarvinnu, skriffinnsku og skort á einbeitingu í fjarfundum, hefur vakið mikla athygli innan fjármálaheimsins.
Ræðan, sem var flutt á starfsmannafundi bankans í Ohio og lak í fjölmiðla, en samkvæmt Financial Times hefur inntak hennar verið til umræðu á Wall Street og í fjármálahverfi London seinustu daga.
Dimon lýsir í ræðunni upplifun sinni að fjöldi starfsmanna sé ekki tiltækur á föstudögum og að margir sinni öðrum verkefnum á sama tíma og þeir sitja á fjarfundum.
Hann segir þetta vera hluti af vaxandi vandamáli innan fjármálageirans; skorti á aga og athygli.
Orð hans virðast hafa hitt naglann á höfuðið þar sem margir stjórnendur í fjármálaheiminum hafa tekið undir með honum.
Að mati Craig Cobens, fyrrverandi yfirmanns hlutabréfaviðskipta hjá Bank of America, er aðalstyrkur ræðu Dimon ekki innihaldið heldur hvernig hann flutti hana.
Harðorð ræða, krydduð léttum blótsyrðum, virðist hafa hitt í mark og talað til margra innan bransans.
Coben bendir á að umkvartanir Dimon um fjarveru starfsmanna á föstudögum séu þó ekki nýjar.
Í áratugi hafa háttsettir bankastarfsmenn gert sér lítið fyrir og farið til Hamptons eða Jersey Shore seinnipart fimmtudags. Jafnframt hafa fundir líklega alltaf verið vettvangur fyrir starfsmenn til að sinna öðru samhliða.
Gagnrýni Dimon fellur vel að þróun innan fjármálageirans þar sem pressan um að „vera á tánum“ er lífsstíll. „Það er alltaf hægt að ná betri árangri“ hefur lengi verið hugsunarháttur á Wall Street, segir Coben.
Endurskipulagning, ný verkefni og óþreytandi krafa um að gera betur eru fastir liðir í bankastarfsemi. Dimon virðist nota umræðuna um fjarvinnu til að festa þessa áherslu enn frekar, segir Coben.
Kynslóðabilið á Wall Street
Að mati Coben varpa orð Dimon einnig ljósi á kynslóðaskipti innan fjármálaheimsins.
Yngri bankamenn hafa undanfarin ár barist fyrir hærri launum, minna vinnuálagi og fríum um helgar. Margir eldri bankamenn telja hins vegar að yngra starfsfólki sé hlíft um of við hástemmdri vinnustaðamenninguna sem þeir ólust upp við.
Á sama tíma og umræðan um jafnvægi vinnu og einkalífs hefur aukist sendir Dimon skýr skilaboð: Bankastarfsemi á háu stigi snýst um pressu, vinnusemi og lítinn svefn.
Þó að sá sem lak upptökunni af ræðu Dimon hafi ef til vill ekki ætlað að skaða ímynd hans, virðist afleiðingin engu að síður hafa styrkt hann sem harðan, árangursdrifinn forstjóra.
@barrons EXCLUSIVE: JPMorgan CEO Jamie Dimon offered up candid, lengthy thoughts about remote work, bureaucracy, and inefficiency during an internal town-hall meeting in Ohio on Wednesday, according to audio recordings of his remarks obtained by Barron’s. #jamiedimon #jpmorgan ♬ original sound - Barron’s