Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, hefur safnað 200 milljónum dollara, eða hátt í 28 milljörðum króna, fyrir kosningaherferð sína á innan við viku samkvæmt tilkynningu sem kosningateymi hennar sendi frá sér í gær.
Samskiptastjóri kosningaherferðar Harris, Michael Tyler, sagði þetta vera metfjárhæð. Af þeim fjármunum sem söfnuðust hafi um 66% komið frá aðilum sem gáfu framlag í fyrsta sinn sem hann sagði merki um gríðarlegan stuðning frá grasrótarhreyfingunni.
Harris hefur safnað meira á einni viku heldur en Joe Biden og Donald Trump gerðu til samans í júnímánuði, samkvæmt gögnum Open Secrets sem Financial Times vísar í.
Kosningaherferð Trump og tengdar pólitískar styrktarnefndir (e. PAC / Political action committee) höfðu safnað samtals 757 milljónum dollara fyrir lok júní síðastliðins.
Til samanburðar hafði kosningaherferð Biden og tengdar styrktarnefndir safnað 746 milljónum dollara áður en hann tilkynnti fyrir rúmri viku að hann hefði hætt við að sækjast eftir endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna.