Rektorar Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands undirrituðu í dag rammasamning um samstarf skólanna. Markmið samningsins er að stuðla að auknu samstarfi um kennslu og rannsóknir og styrkja þannig báða skólana. Í tilkynningu frá skólunum segir að þannig verði stefnt að nánu þverfaglegu samstarfi um námsleiðir, m.a. í formi samvinnu um námskeið, sameiginlegra námsleiða og prófgráða.
„Skólarnir vilja með nánara samstarfi leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að framförum í atvinnulífi og betra samfélagi með því að bjóða fram hagkvæma gæðamenntun. Skólarnir eru sérstaklega meðvitaðir um þýðingu sína fyrir atvinnulíf og samfélag á Vesturlandi og almennt í hinum dreifðu byggðum Íslands,“ segir í tilkynningunni.
Einnig undirrituðu rektorarnir sérstakt samkomulag um sameiginleg námskeið í matvælatengdum greinum sem meðal annars eru hluti af námi í matvælarekstrarfræði við Háskólann á Bifröst og valgreinar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Matís mun annast kennslu á nokkrum þessara námskeiða en önnur verða kennd af sérfræðingum í fremstu röð á viðkomandi sviðum.