Að þéna yfir 100 þúsund pund á ári í Bret­landi, áður tákn um vel­gengni, hefur að margra mati breyst í fjár­hags­lega gildru.

Nýjar tölur sýna að þeir sem fara yfir þessi mörk greiða í reynd mun hærri jaðar­skatta en opin­ber skatt­hlut­föll gefa til kynna og margir sjá litla ástæðu til að vinna meira eða þiggja launa­hækkanir.

Ástæðan er sú að persónu­afslátturinn, sem nemur 12.570 pundum, skerðist um eitt pund fyrir hverja tvo pund sem ein­stak­lingur þénar um­fram 100 þúsund pund og fellur alveg niður við 125.140 pund.

Þannig fer jaðar­skatturinn í allt að 60% á bilinu 100–125 þúsund pund, þar sem fólk heldur aðeins eftir 400 pundum af hverjum þúsund pundum sem það vinnur sér inn. Þegar 2% trygginga­gjald bætist við lækkar hlut­fallið enn frekar.

Fyrir for­eldra er staðan sér­stak­lega óhagstæð.

Við 100 þúsund punda tekjumörkin fellur niður rétturinn til 30 klukku­stunda ókeypis leikskóla­vistar á viku og skatt­frjálsra styrkja vegna barnagæslu, sem geta numið allt að 2.000 pundum á barn á ári.

Sam­kvæmt út­reikningum AJ Bell getur 2.000 punda launa­hækkun leitt til alls 27.880 punda skerðingar í formi skatta og tapaðra styrkja.

Til að ná aftur sömu ráðstöfunar­tekjum og áður þyrftu launin að hækka úr 99 þúsund pundum í um 156 þúsund pund.

Sam­kvæmt bresku skatt­stofunni HMRC munu 725 þúsund Bretar lenda í 60% skatta­gildrunni í ár, saman­borið við 300 þúsund árið 2018.

Spár gera ráð fyrir að fjöldinn verði orðinn 850 þúsund árið 2028–2029, þar sem laun hækka en skatt­hlut­föll haldast óbreytt í fyrir­bæri sem kallast „fis­cal drag“. Alls er áætlað að 2,25 milljónir launþega muni þá missa hluta eða allan persónu­afslátt sinn.

Sér­fræðingar segja að skatt­gildran hvetji marga tekju­háa starfs­menn til að endur­skoða vinnu­magn sitt.

Sumir neita launa­hækkunum, fresta bónus­greiðslum eða minnka starfs­hlut­fall til að halda tekjum undir 100 þúsund pundum. Aðrir nýta aukið svigrúm til líf­eyris­sparnaðar eða styrkja til góð­gerðar­mála til að lækka skatt­stofninn.

„Þegar skatt­yfir­völd taka 60 peninga af hverju pundi sem þénast er um­fram 100 þúsund, minnkar hvati fólks til að leggja sig meira fram,“ segir John Clamp hjá Bowmor­e Financial Planning.

Vandinn á rætur sínar að rekja til ákvörðunar Gor­don Brown árið 2010 sem ákvað láta persónu­afslátt hverfa í stigum, eftir efna­hags­hrunið.

Skatt­leysis­mörkin hafa ekki hækkað síðan. Hefðu þau fylgt verðbólgu væru þau nú 154.800 pund, sam­kvæmt NFU Mutu­al.

Ríkis­stjórnir hafa kosið að frysta skatt­hlut­föll frekar en að hækka skatt­pró­sentur beint, að­ferð sem oft er kölluð „skatt­lagning í felum“.

Ný ríkis­stjórn hefur þó lofað að láta mörkin hækka með verðbólgu árið 2028, en efna­hags­leg óvissa gæti sett strik í reikninginn.