Útgerðarfélagið Gjögur á Grenivík hagnaðist um 640 milljónir króna árið 2023 og jókst hagnaður um 13 milljónir frá fyrra ári. Í ársreikningi segir að hagnaðaraukningin skýrist af gengismun og hækkuðum tekjum. Rekstrartekjur útgerðarfélagsins námu 6,6 milljörðum og jukust um 6% milli ára. Eignir námu 17,9 milljörðum í árslok 2023 og eigið fé 7 milljörðum.
Anna og Ingi Guðmundarbörn eru stærstu eigendur félagsins en þau eiga hvort um sig 22% hlut. Aðalheiður, Sigríður, Oddný, Björgólfur og Guðjón Jóhannsbörn eiga hvert um sig rúmlega 8% hlut. Loks eiga Freyr, Þorbjörn og Marinó Njálssynir hver um sig tæplega 4% hlut.
Kjálkanes, fjárfestingarfélag sem er í eigu sömu aðila, hagnaðist um 2,3 milljarða króna á síðasta ári. Hagnaður dróst saman um ríflega 2 milljarða frá fyrra ári. Kjálkanes á ýmis markaðsverðbréf og er meðal annars næst stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar, auk þess að vera í dag þriðji stærsti einkafjárfestirinn í Festi.
Eignir félagsins námu 29,5 milljörðum í árslok 2023 og eigið fé 29,4 milljörðum. Þar af nam óráðstafað eigið fé 20,5 milljörðum.
Meðan stjórn Gjögurs leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu vegna rekstur síðasta árs leggur stjórn Kjálkaness til 850 milljóna arðgreiðslu. Gjögur greiddi ekki heldur út arð í fyrra en Kjálkanes greiddi út 850 milljónir í arð.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.