Orku- og veitufyrirtæki landsins munu fjárfesta fyrir 483 milljarða króna á næstu fimm árum samkvæmt könnun sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gerðu meðal aðildarfyrirtækja sinna og kynnt var á ársfundi samtakanna í dag. Til samanburðar jafngildir upphæðin tvöföldum kostnaði nýs Landspítala eða tíföldum kostnaði Fjarðarheiðaganga.
Samkvæmt könnuninni fer stærsti hluti fjárfestinganna í framleiðslu, flutning og dreifingu raforku eða 300 milljarðar króna. Fjárfestingar hitaveitna nema 93 milljörðum, fráveitna 49 milljörðum og vatnsveitna 40 milljörðum.
Sameiginlega eiga þær að tryggja nauðsynlega uppbyggingu, viðhald og framþróun innviða í samræmi við orkuskipti, fólksfjölgun og aukna eftirspurn í samfélaginu eftir öruggri og sjálfbærri þjónustu.
Hafa brugðist grunnskyldu sinni
Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Samorku fyrr í dag er áherslum núverandi ríkisstjórnar á græna orkuöflun, styrkingu innviða og þar með auknum tækifærum í orkuskiptum og loftslagsmálum fagnað. Stjórnvöld hafi aftur á móti hingað til brugðist sinni grunnskyldu að tryggja orkuöryggi.
„Margvíslegar greiningar færustu aðila hafa um árabil sýnt að við blasir verulegt ójafnvægi í orkubúskap landsins. Málefnalegum sjónarmiðum er mætt með tortryggni og vantrú. Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða svo tryggja megi raforkuöryggi til skemmri tíma ef orku á markaði þrýtur,“ segir í ályktuninni.
Tryggja þurfi raforkuöryggi til skemmri tíma og til framtíðar, þar sem mikilvægt er að stjórnsýsluferlar vinni með orku- og veituframkvæmdum en standi ekki beinlínis í vegi fyrir verkefnum sem eru reiðubúin til framkvæmda.
Auknar álögur geti dregið úr fjárfestingum
Einfalda þurfi ferli leyfisveitinga og skipulagsmála og horfa þar til þróunar í Evrópu varðandi umgjörð orkuflutnings og orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, þar sem framleiðsla, flutningur og dreifing sé í þágu brýnustu almannahagsmuna.
Sveitarfélög verði þá eins og ríkið að sýna ábyrgð á hlutverki sínu í uppbyggingu orku- og veitumannvirkja, með hliðsjón af skipulags- og leyfirsveitingarvaldi þeirra, til að hægt sé að komast út úr því ójafnvægi framboðs og eftirspurnar sem núverandi umgjörð hefur valdið.
„Um allan heim eru sveitarfélög í lykilhlutverki við að leiða orkuskipti sinna þjóða. Samorka styður sjónarmið um að sveitarfélög og íbúar þeirra njóti ábata af uppbyggingu í raforkuframleiðslu í sínu nágrenni. Þeim markmiðum verður ekki náð með auknum álögum heldur með jafnari skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga,“ segir í ályktuninni.
Við frekari vinnslu á auðlinda- og skattatillögum stjórnvalda þurfi að hafa í huga að auknar álögur á raforkuframleiðslu geta dregið úr fjárfestingum á sama tíma og ljóst er að þörf er á mikilli uppbyggingu í raforkuframleiðslu. Þá þurfi að horfa til þess að orku- og veitustarfsemin skili nú þegar miklum fjárhagslegum ávinningi til samfélagsins.
Breytinga þörf víða
Í ályktuninni er einnig vakin athygli á mikilvægi orku í breyttum veruleika á alþjóðavettvangi, þörfina á fjölbreyttum grænum orkukosta og aðgerðum til að tryggja samkeppnishæfni og skynsamlegt regluverk. Þá er talað fyrir afnámi verndar- og orkunýtingaráætlunar, kallað eftir skýrari framtíðarsýn um jarðhitaleit til að mæta heitavatnsþörf til framtíðar, áhersla lögð á eflingu flutnings- og dreifikerfa raforku, hugað að fersku neysluvatni og framtíð fráveitna.