Rúmlega 90% af öllu starfsfólki breska fjarskiptafyrirtækisins Lycamobile hefur verið tilkynnt að þau gætu misst vinnuna. Guardian greinir frá þessu en þar segir að hátt í 300 starfsmenn gætu nú misst vinnuna skömmu fyrir jól.

Lycamobile er í eigu milljónamæringsins Allirajah Subaskaran en fyrirtækið selur meðal annars greiðslukort sem eru vinsæl meðal láglaunafólks í Bretlandi sem vill hringja ódýr erlend símtöl til fjölskyldumeðlima.

Fyrirtækið greindi starfsfólki sínu frá þessu á föstudaginn sl. og sagði að það stæði frammi fyrir alvarlegum áskorunum. Lycamobile tapaði 24 milljónum punda árið 2022 og hafa endurskoðendur lýst yfir áhyggjum af ógagnsæi þegar kæmi að bókhaldi félagsins.

Franska dótturfyrirtæki samstæðunnar var jafnframt sektað um tíu milljónir evra á síðasta ári af dómstóli í París fyrir peningaþvætti og virðisaukaskattssvik.