Fyrsti viðskiptadagur Ísfélagsins á Aðalmarkaði byrjar vel og stendur gengi félagsins í 163,5 krónum eftir um milljarðs króna viðskipti í morgun.
Útboðsgengi í hlutafjárútboði félagsins var 135 krónur og hefur því gengið hækkað um meira en 20% strax í fyrstu viðskiptum.
Rúmlega fimmföld eftirspurn var eftir hlutum í áskriftarbók A og rúmlega þreföld eftirspurn var í áskriftarbók B og var endanlegt útboðsgengi þar 155 kr. á hlut.
„Ísfélag hf. var stofnað árið 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Félagið stundar aðallega veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski, bolfiski og rækju auk þess sem dótturfélög þess stunda margþætta tengda starfsemi. Ísfélagið er eitt af stærstu sjávarútvegsfélögum landsins með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum og starfsstöðvar að auki á Siglufirði, í Þorlákshöfn og á Þórshöfn,“ segir í tilkynningu frá Kauphöllinni í morgun.
„Skráning Ísfélags á aðalmarkað Nasdaq Iceland markar mikilvæg tímamót fyrir félagið,” segir Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins.
„Við sjáum fram á vaxtartækifæri í aflaheimildum sem og í gegnum hlutdeildar- og dótturfélög okkar og stefnum á að styrkja samkeppnisstöðu okkar á alþjóðlegum mörkuðum, m. a. með hagræðingu og sérhæfingu í veiðum og vinnslu. Við erum afar ánægð með frábæra niðurstöðu úr útboðinu sem sýnir traust fjárfesta á félaginu og framtíð þess. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim.”