Fyrsti við­skipta­dagur Ís­fé­lagsins á Aðal­markaði byrjar vel og stendur gengi fé­lagsins í 163,5 krónum eftir um milljarðs króna við­skipti í morgun.

Út­boðs­gengi í hluta­fjár­út­boði fé­lagsins var 135 krónur og hefur því gengið hækkað um meira en 20% strax í fyrstu viðskiptum.

Rúm­lega fimm­föld eftir­spurn var eftir hlutum í á­skriftar­bók A og rúm­lega þre­föld eftir­spurn var í á­skriftar­bók B og var endan­legt út­boðs­gengi þar 155 kr. á hlut.

„Ís­fé­lag hf. var stofnað árið 1901 og er elsta starfandi hluta­fé­lag landsins. Fé­lagið stundar aðal­lega veiðar og vinnslu á upp­sjávar­fiski, bol­fiski og rækju auk þess sem dóttur­fé­lög þess stunda marg­þætta tengda starf­semi. Ís­fé­lagið er eitt af stærstu sjávar­út­vegs­fé­lögum landsins með höfuð­stöðvar í Vest­manna­eyjum og starfs­stöðvar að auki á Siglu­firði, í Þor­láks­höfn og á Þórs­höfn,“ segir í til­kynningu frá Kaup­höllinni í morgun.

„Skráning Ís­fé­lags á aðal­markað Nas­daq Iceland markar mikil­væg tíma­mót fyrir fé­lagið,” segir Stefán Frið­riks­son, for­stjóri Ís­fé­lagsins.

„Við sjáum fram á vaxtar­tæki­færi í afla­heimildum sem og í gegnum hlut­deildar- og dóttur­fé­lög okkar og stefnum á að styrkja sam­keppnis­stöðu okkar á al­þjóð­legum mörkuðum, m. a. með hag­ræðingu og sér­hæfingu í veiðum og vinnslu. Við erum afar á­nægð með frá­bæra niður­stöðu úr út­boðinu sem sýnir traust fjár­festa á fé­laginu og fram­tíð þess. Við bjóðum nýja hlut­hafa vel­komna og hlökkum til að vinna með þeim.”