Vísitala raungengis íslensku krónunnar, á mælikvarða verðlags, þ.e. þegar gengi krónunnar hefur verið leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum, hefur hækkað verulega á undanförnum misserum og nálgast nú svipuð gildi og í uppgangi ferðaþjónustunnar á árunum fyrir heimsfaraldur.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands hækkaði vísitala raungengis um 1,05% milli febrúar og mars og nam 96,3 stigum í mars. Þetta er hæsta gildið frá ágúst 2018.

Hátt raungengi og aukinn viðskiptahalli

Viðskiptahalli nam 116,8 milljörðum króna á síðasta ári, sem jafngildir 2,5% af vergri landsframleiðslu, miðað við 36,5 milljarða afgang árið áður. Í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem birt var 25. mars, er gert ráð fyrir að halli á viðskiptajöfnuði nemi um 3% af VLF á þessu ári.

Í hagspá Arion banka, sem kom út í byrjun mánaðar, er bent á að fjölgun fjárfestingarverkefna muni líklega auka enn frekar á vöruskiptahalla og þar með viðskiptahalla. Bankinn spáir áframhaldandi halla á utanríkisverslun út árið 2027, bæði hvað varðar vöru- og þjónustujöfnuð og heildarviðskiptajöfnuð.

Samhliða þessu gerir Landsbankinn ráð fyrir að raungengið hækki áfram á næstu árum. Gerir bankinn ráð fyrir 4,6% hækkun á þessu ári, aðallega vegna gengisstyrkingar sem þegar hefur átt sér stað.

Árið 2026 muni raungengið hækka um 0,8%, en þá verði hámarkinu náð. Árið 2027 reiknar bankinn með 0,5% lækkun raungengis.

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur segir ljóst að núverandi stig raungengis sé ekki sjálfbært fyrir samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og annarra útflutningsgreina.

„Sagan hér og annars staðar kennir okkur að ef raungengið helst lengi yfir sögulegum jafnvægisgildum og á sama tíma safnast upp viðskiptahalli, þá endar það yfirleitt með leiðréttingu og gengið gefur eftir. Oftast gerist það hratt og hressilega,“ segir hann og bendir á að raungengið sé nú komið á svipaðar slóðir og árið 2018, þegar krónan veiktist snarpt síðar sama ár.

„Ef þetta heldur áfram, þ.e. raungengið hækkar og viðskiptahallinn eykst, þá aukast líkurnar á því að eitthvað brotni með látum. Það gætu verið útflutningsgreinarnar eða fyrirtæki sem lenda í slæmri stöðu, eða þá að trúverðugleiki krónunnar beri hnekki. Ef allir skipta um skoðun á sama tíma og missa trú á ákveðnu gengisstigi fyrir krónuna þá þarf ekki mikil viðskipti til að gengið lækki töluvert.“

Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands hækkaði vísitala raungengis um 1,05% milli febrúar og mars og nam 96,3 stigum í mars.
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.