Sam­kvæmt greiningar­deild Lands­bankans er komið að kafla­skilum eftir kröftugt tíma­bil hag­vaxtar í kjöl­far far­aldursins. Sam­kvæmt hag­spá bankans til ársins 2026 verður hag­vöxtur mjög tak­markaður á næstu árum.

Spá bankans gerir ráð fyrir 0,9% hag­vexti í ár, 2,2% á næsta ári og loks 2,6% árið 2026.

„Hátt vaxta­stig mun letja hag­vöxt þar sem neysla ein­stak­linga verður minni en ella og ýmsum fjár­festingar­verk­efnum verður slegið á frest þar til vextir lækka. Við spáum því að fjár­muna­myndun aukist að­eins um 0,1% á þessu ári og einka­neysla um 0,9%. Við spáum á­fram vexti í ferða­þjónustu, þó að það hægi tals­vert á honum og að á næstu árum fjölgi ferða­mönnum sem hingað koma um 3-4% ár­lega,“ segir í hag­spá bankans.

Peninga­stefnu­nefnd seðla­banka Ís­lands kom síðast saman í mars og sló í harðari tón en vonir stóðu til að mati greiningar­deildarinnar. Í yfir­lýsingu nefndarinnar kom fram að enn væri bið eftir skýrum vís­bendingum um að verð­bólga væri aug­ljós­lega að hjaðna.

„Við spáum því að verð­bólga hjaðni hægt á næstu mánuðum og stýri­vextir verði ekki lækkaðir fyrr en í októ­ber,“ segir í hag­spá Lands­bankans.

Að mati bankans verður verð­bólga komin niður í 5,5% á fjórða árs­fjórðungi en hún mældist 6,1% í apríl­mánuði.

„Ýmsir þættir sem hafa á­hrif á verð­bólguna þurfa þó að þróast á hag­stæðan hátt til þess að spáin gangi eftir og peninga­stefnu­nefnd sjái sér fært að lækka vexti. Það á eftir að semja við stóran hluta vinnu­markaðarins og eins á eftir að koma í ljós hversu vel stjórn­völdum tekst að koma í veg fyrir að aukin út­gjöld kyndi undir verð­bólgu.“

Lands­bankinn tekur fram að sem fyrr er spáin háð ó­vissu en ó­friður og stríðs­rekstur gæti haft á­hrif á efna­hag ýmissa við­skipta­landa Ís­lands og þar með á Ís­land. Þar að auki standa elds­um­brot á Reykja­nes­skaga enn yfir og gætu ógnað inn­viðum á svæðinu og haft á­hrif á ferða­þjónustu þar.