Samkvæmt greiningardeild Landsbankans er komið að kaflaskilum eftir kröftugt tímabil hagvaxtar í kjölfar faraldursins. Samkvæmt hagspá bankans til ársins 2026 verður hagvöxtur mjög takmarkaður á næstu árum.
Spá bankans gerir ráð fyrir 0,9% hagvexti í ár, 2,2% á næsta ári og loks 2,6% árið 2026.
„Hátt vaxtastig mun letja hagvöxt þar sem neysla einstaklinga verður minni en ella og ýmsum fjárfestingarverkefnum verður slegið á frest þar til vextir lækka. Við spáum því að fjármunamyndun aukist aðeins um 0,1% á þessu ári og einkaneysla um 0,9%. Við spáum áfram vexti í ferðaþjónustu, þó að það hægi talsvert á honum og að á næstu árum fjölgi ferðamönnum sem hingað koma um 3-4% árlega,“ segir í hagspá bankans.
Peningastefnunefnd seðlabanka Íslands kom síðast saman í mars og sló í harðari tón en vonir stóðu til að mati greiningardeildarinnar. Í yfirlýsingu nefndarinnar kom fram að enn væri bið eftir skýrum vísbendingum um að verðbólga væri augljóslega að hjaðna.
„Við spáum því að verðbólga hjaðni hægt á næstu mánuðum og stýrivextir verði ekki lækkaðir fyrr en í október,“ segir í hagspá Landsbankans.
Að mati bankans verður verðbólga komin niður í 5,5% á fjórða ársfjórðungi en hún mældist 6,1% í aprílmánuði.
„Ýmsir þættir sem hafa áhrif á verðbólguna þurfa þó að þróast á hagstæðan hátt til þess að spáin gangi eftir og peningastefnunefnd sjái sér fært að lækka vexti. Það á eftir að semja við stóran hluta vinnumarkaðarins og eins á eftir að koma í ljós hversu vel stjórnvöldum tekst að koma í veg fyrir að aukin útgjöld kyndi undir verðbólgu.“
Landsbankinn tekur fram að sem fyrr er spáin háð óvissu en ófriður og stríðsrekstur gæti haft áhrif á efnahag ýmissa viðskiptalanda Íslands og þar með á Ísland. Þar að auki standa eldsumbrot á Reykjanesskaga enn yfir og gætu ógnað innviðum á svæðinu og haft áhrif á ferðaþjónustu þar.