Niceland Seafood Holding ehf., sem er í 75% eigu Eyris Ventures, tapaði 572 milljónum króna á árinu 2022 og nemur uppsafnað tap samstæðunnar hátt í 1,7 milljörðum króna frá stofnun.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að tap ársins 2022 skýrist af endurskipulagningu hjá dótturfélögum félagsins; Niceland Seafood ehf., Nastar ehf. og Niceland Seafood ltd. Samstæðan bókfærði 520 milljónir vegna aflagðrar starfsemi.

Fiskifréttir greindu frá því í haust að Niceland Seafood væri hætt starfsemi og að rekstur þess í Bandaríkjunum hafi verið seldur. Heiða Kristín Helgadóttir, einn stofnenda fyrirtækisins, sagði ýmsar ástæður fyrir að reksturinn hafi gengið upp en Covid-faraldurinn hafði m.a. víðtæk áhrif. Félagið var komið á gott skrið fyrir faraldurinn að hennar sögn.

Heiða Kristín, sem starfar í dag sem framkvæmdastjóri Sjávarklasans, sagði að fjárfest hefði verið ríkulega í vörumerkinu Niceland Seafood og það hafi ekki fylgt með í kaupunum þegar reksturinn var seldur. Hún kvaðst áfram hafa óbilandi trú á vörumerkinu.

Niceland Seafood var stofnað árið 2017 af Heiðu Kristínu og Oliver Luckett. Hugmyndin var að gera út á ímynd Íslands með því að selja rekjanlegan íslenskan fisk beint til neytenda erlendis.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 177 milljónir í árslok 2022. Eigið fé var neikvætt um 372 milljónir og skuldir námu 549 milljónum, þar af var 420 milljóna langtímalán við Eyri Ventures.

Í árslok 2022 átti Eyrir Ventures ehf. 74,9% hlut í Niceland Seafood Holding, Efni ehf. átti 16,0% hlut og BHV ehf. 9,2% hlut.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaði vikunnar.