Til lengri tíma litið er ljóst að festa í peningamálum skilar sér í stöðugra verðlagi og lægra vaxtastigi, þótt það geti kostað sársauka þegar á reynir, segir Ásgerður Ósk Pétursdóttir, nýjasti meðlimur Peningastefnunefndar.
Hún segir umræðuna um peningamálin vera orðna ansi skrýtna á köflum og kallar eftir meira aðhaldi fjölmiðla gagnvart viðmælendum sem tali fyrir óhefðbundnum aðferðum með vísan í fullyrðingar sem standist illa skoðun.
Ásgerður segir skiljanlegt sé að margir hafi skoðanir á stýrivaxtaákvörðunum í ljósi þeirra verulegu áhrifa sem þær geti haft á allt hagkerfið og sjálfsagt að þær séu ræddar. Málefnaleg gagnrýni eigi því vitanlega rétt á sér, en öðru máli gegni þegar hún sé farin að fela í sér forsendur og ályktanir sem eigi sér litla eða enga stoð í raunveruleikanum.
„Það er svolítið sérstakt þegar umræðan er orðin á þá leið að vaxtahækkanir séu ekkert að virka en næsta setning er síðan um hversu fast þeir séu farnir að bíta og hversu erfitt ástandið sé orðið. Eitthvað hljóta þeir þá að virka fyrst svo er,“ segir hún og bætir við að þegar aðrir hagstjórnaraðilar vinni ekki með nefndinni þá liggi í augum uppi að Seðlabankinn þurfi á móti að gera meira.
„Það væri til mikils að vinna ef fólk gæti hugsað þetta meira út frá því hver er tilgangurinn með vaxtahækkunum,“ segir Ásgerður og bendir á hið augljósa, að nefndin sé að sjálfsögðu ekki að leika sér að því að hækka vexti og geri það ekki af léttúð. „Þetta snýst auðvitað um að ná og viðhalda jafnvægi í hagkerfinu, sem birtist okkur hvað best í formi verðstöðugleika. Ef við myndum ekki gera það þá er ljóst að staðan yrði ennþá verri til lengri tíma litið. Það væri óskandi að sá vinkill fengi aðeins meira pláss í umræðunni stundum.“
Nánar er rætt við Ásgerði í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudag.