Vinsælir ferðamannastaðir um allan heim eru nú að endurskoða hlutverkið sem ferðamenn spila í samfélögum sínum og það álag sem ferðaþjónustan setur á takmarkaðar náttúruauðlindir. Margar ríkisstjórnir hafa til að mynda tekið upp á því að rukka ferðamenn um gjald fyrir komu til landsins.

Í síðustu viku var greint frá því að stjórnvöld á Balí hafi farið þessa leið og rukka nú hvern ferðamann um tíu dali við komuna. Ferðamannaskatturinn er hluti af áætlun indónesísku ríkisstjórnarinnar um að vernda bæði umhverfi og menningu eyjunnar.

Ríkisstjórnin á bandarísku eyjunni Hawaii, sem tók á móti meira en 9,5 milljónum ferðamanna á síðasta ári, er að hugsa um að gera slíkt hið sama. Þar skoða stjórnvöld nú að leggja 25 dala ferðamannagjald sem færi í að vernda strendur og hjálpa við að koma í veg fyrir skógarelda.

Á Hawaii búa um 1,4 milljónir manns en ríkið er enn að jafna sig eftir gríðarlega skógarelda sem áttu sér stað við Lahaina á eyjunni Maui á síðasta ári sem urðu að minnsta kosti 100 manns að bana. Fjöldi gesta hefur fækkað undanfarna mánuði en samkvæmt ríkisskýrslu þá er eyðslan svipuð og hún var árið 2022.

„Þetta er mjög lágt verð fyrir það að varðveita paradís,“ segir Josh Green, ríkisstjóri Hawaii.

Sumir sem starfa í ferðaþjónustu á Hawaii segja hins vegar að tillagan gæti þrengt að fyrirtækjum sem eiga enn í erfiðleikum með að ná sér eftir skógareldana og gætu þau þurft að breyta bókhaldskerfi sínu. Aðrir segja að ferðamenn myndu vera móttækilegri fyrir gjaldi sem myndi renna beint til ríkisgarða og annarra áfangastaða sem þeir heimsækja.