Um 684 milljóna punda tap fyrir skatta, eða sem nemur 118 milljörðum króna á gengi dagsins, varð af rekstri flugvallarins Heathrow í London í fyrra. Afkoman batnaði þó talsvert frá fyrra árinu 2021 þegar tapið nam 1,3 milljörðum punda.
Í afkomutilkynningu segir að bættan rekstur megi einkum rekja til þess að farþegafjöldinn tæplega þrefaldaðist á milli ára og var um 62 milljónir. Farþegafjöldinn var engu að síður 25% minni en árið 2019.
Þá segir að yfir 25 þúsund manns hafi hafið störf á Heathrow á undanförnum átján mánuðum og starfsmannafjöldinn sé nú að nálgast sama stig og fyrir Covid-faraldurinn.
Hluthafar Heathrow eru spænski innviðafjárfestirinn Ferrovial með 25% hlut, þjóðarsjóður Katar með 20% hlut, kanadíski lífeyrissjóðinn CDPQ með 12,6% hlut, singapúrski þjóðarsjóðurinn GIC með 11,2% hlut, innviðafjárfestirinn Alinda Capital Partners með 11,2% hlut, kínverski þjóðarsjóðurinn CIC með 10% hlut og breski lífeyrissjóðurinn USS með 10%.