Hagnaður samstæðu véltæknifyrirtækisins Héðins og dótturfélagsins Héðinshurða nam einum milljarði króna árið 2024, samanborið við 740 milljónir árið 2023.

Stjórn Héðins lagði til að greiddur verði út arður til hluthafa á árinu 2025 að fjárhæð 750 milljónir króna.

Tekjur samstæðunnar jukust um 42% milli ára og námu 10 milljörðum króna, samanborið við 7 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) fór úr 916 milljónum í 1.240 milljónum milli ára.

Eignir Héðins voru bókfærðar á tæplega 3,7 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var tæplega 2,2 milljarðar.

Í byrjun árs 2024 var samið um kaup Héðins á félögunum El-Rún og Hind en þau sérhæfa sig í rafstýringum og forritun fyrir sjávarútveginn og á grunni þeirra var stofnuð raftæknideild innan Héðins.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi Héðins segist félagið hafa undanfarin ár lagt áherslu á markaðssókn á Norðurlöndununum með stofnun formlegrar starfsstöðvar í Noregi. Félagið hafi undanfarin ár unnið margvísleg verkefni við norðanvert Atlantshaf og á vesturströnd Bandaríkjanna.

Breytt eignarhald

Í maí síðastliðnum var tilkynnt um að Héðinn eignarhaldsfélag ehf. hefði keypt 93% hlut í Héðni hf.

Á bakvið kaupin stóðu Guðmundur Sveinsson, fyrrverandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Héðins til áratuga, sem átti fyrir 24% hlut í Héðni, Halldór Lárusson núverandi stjórnarformaður Héðins, sem hefur setið í stjórn félagsins síðan 1994, og Eðvarð Ingi Björgvinsson, framkvæmdastjóri Héðins en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu í sextán ár.

Seljendur voru RGI ehf. sem er í eigu þriggja lykilstarfsmanna Héðins, og þrír afkomendur annars stofnanda Héðins, Markúsar Ívarssonar.