Véltæknifyrirtækið Héðinn hf. Hefur gengið frá samningum um kaup á rekstri félaganna El-Rún ehf. og Hind ehf. en fyrirtækin tvö sérhæfa sig í rafstýringum og forritun fyrir sjávarútveginn.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá fyritækinu eru kaupin liður í að styrkja framtíðaráform Héðins en í kjölfar kaupanna var stofnuð sérstök raftæknideild innan Héðins.
Fyrrum eigendur fyrirtækjanna munu starfa áfram hjá Héðni og hafa þegar hafið störf á nýstofnaðri raftæknideild.
Steinar Rúnarsson sem áður starfaði fyrir systurfélag Héðins, HPP solutions hefur verið ráðinn sem deildarstjóri nýju deildarinnar.
Með kaupunum á fyrirtækjunum eru starfsmenn Héðins nú orðnir 131 talsins.
„Með kaupum á fyrirtækjunum og stofnun raftæknideildar erum við að svara kalli viðskiptavina okkar sem leggja áherslu á aukna sjálfvirkni og heildarlausnir. Við sjáum fyrir okkur vaxandi þörf á raftæknilausnum og sérfræðiþekkingu á þessu sviði, breytingarnar eru stórt skref í þá átt. Nýja deildin mun starfa þvert á fyrirtækið og sinna jafnt sérfræðiþjónustu við skip og verksmiðjur sem við erum að þjónusta,” segir Eðvarð Ingi Björgvinsson, framkvæmdastjóri Héðins: