Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri furðar sig á sífelldu ákalli foringja verkalýðshreyfingarinnar eftir lækkun stýrivaxta í ljósi þess að kjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði snerust að meginefni um að ná verðbólgu niður.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri furðar sig á sífelldu ákalli foringja verkalýðshreyfingarinnar eftir lækkun stýrivaxta í ljósi þess að kjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði snerust að meginefni um að ná verðbólgu niður.

„Núna var heimtað að við myndum lækka vexti eftir kjarasamninga. Það er mjög skrítið finnst mér að þegar þú gerir samninga sem byggja á því að verðbólga gangi niður og eina uppsagnarákvæðið í samningnum tengist verðbólgu, að þú viljir síðan heimta það að Seðlabankinn geri hluti til þess að samningarnir gangi sannarlega ekki eftir,“ sagði Ásgeir í erindi á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær.

„Það er alveg skýrt að ef við hefðum farið í vaxtalækkunarferli strax eftir samningana þá hefðum við hleypt öllu kerfinu upp og hefðum séð verðbólgu aukast aftur. Í stað þess erum við ná henni niður núna. Við erum að sjá kerfið hægja á sér.“

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær bar Ásgeir saman stöðu íslenska og evrópska hagkerfisins saman.

Hagvöxtur hér á landi hafi verið í sérflokki á undanförnum árum og raunar á allt öðrum stað en í Evrópu. Almennt hafi verið mun meiri launahækkanir og uppgangur á Íslandi en í Evrópu sem hafi reynt á þanþol hagkerfisins.

„Næst þegar verkalýðsfélögin boða til mótmæla á Austurvelli til að mótmæla verðbólgu, þá væri kannski hægt að sýna þeim þessa mynd,“ sagði Ásgeir og bætti við að gríðarlega erfitt sé að halda verðstöðugleika með jafnmiklum launahækkunum og hafa verið hér á landi.

Tekið úr kynningu Ásgeirs.

„Ef við værum með evrópskan hagvöxt og ef við værum með evrópsk laun þá gætum við haft evrópska vexti, svo það sé alveg á hreinu.“

Mesta eignamyndun hjá heimilum í ansi langan tíma

Ásgeir fór einnig yfir eignamyndun íslenskra heimili á síðustu árum út frá tekjutíundum. Þrátt fyrir krefjandi efnahagsaðstæður hafi átt sér stað „gríðarlega mikil eiginfjármyndun á Íslandi, einkum í gegnum húsnæði,“ sagði Ásgeir.

Það skýrist af miklum hækkunum á húsnæðisverði auk þess að þeir sem festu vexti á íbúðalánum sínum þegar vaxtastigið var mun lægra hafi verið með neikvæða raunvexti í nokkurn tíma.

„Við erum að horfa á núna líklega mestu eignamyndun hjá heimilunum í landinu í ansi langan tíma og þetta gengur yfir allar tekjutíundir,“ sagði Ásgeir.

Hann bætti þó við að vaxtagjöld heimila hafi vissulega verið að hækka „sem ég veit að fólk finnur fyrir“ og staðan getur verið misjöfn eftir hópum. Flest heimili landsins séu hins vegar flest hver með fjármálin í tiltölulega góðu lagi að sögn seðlabankastjóra.

„Ég held að það sé tvennt sem skiptir máli. Annars vegar að fólk er að fara varlegar eftir fjármálahrunið mikla og líka það að við höfum sett mjög stífar reglur um lántökur og lánveitingar.“

Ásgeir sagðist halda að þeir sem hafa það hvað verst séu þeir sem eru á leigumarkaði.

Erfiðara að hækka vexti í raunveruleikanum en í líkönum

Ásgeir fjallaði stuttlega um vaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu, sem voru fjórtán talsins á árunum 2021-2023.

„Ég veit að þetta hefur verið mjög sársaukafullt meðal en þetta er eina meðalið sem við höfum. Þetta er ekkert sem við höfum fundið upp hér, þetta er það sem Seðlabankar beita. Af því að við höfum verið að eiga við mikinn hagvöxt, mikla þenslu og mikinn uppgang, þá höfum við þurft að hækka vexti miklu meira.“

Ásgeir segir að mögulega hefði bankinn átt að hækka vexti hraðar, en það geti hins vegar reynst erfitt.

„Þó að í einhverjum hagfræðilíkönum þá hljómi vel að ætla að taka vexti um fleiri hundruð punkta á einhverjum engum tíma, þá gengur það mjög illa í raunhagkerfinu vegna þess að þetta eru töluverð inngrip í lánasamninga og fjármagnsmarkaðinn að hækka vexti. Það eru takmörk fyrir því hvað við getum gert það hratt.“

Hann lýsti vaxtalækkun Seðlabankans í síðustu viku sem litlu og varlegu skrefi. „Við viljum þá í fyrsta lagi byrja að lækka, vera með hagkerfinu fremur en að bíða of lengi. En að sama skapi ef hlutirnir ganga gegn okkur þá munum við auðvitað ekki lækka meira í bili.“

Stöðugleikasamningarnir marki tímamót

Undir lok fundarins sagði Ásgeir að þótt hann hefði gert grín að verkalýðsfélögunum fyrr í erindinu, þá áréttaði hann að hann telji Stöðugleikasamningana sem voru undirritaðir í maí duga til þess að styðja við verðstöðugleika. „Ég held að þeir marki tímamót. Ég er mjög ánægður yfir því.“

Þá álíti Seðlabankinn fjárlög fyrir árið 2025, eins og þau voru lögð fram, líka til hjálpar í núverandi efnahagsaðstæðum. Bankinn óttist hins vegar hvað gerist fyrir fjárlögin í þinginu.

„Ég held að við séum búin að leggja öll drög að því að við ættum að geta lent þessu sæmilega. Um leið og ég segi þetta þá er það þannig íslenska hagkerfið er ekki endilega allaf fyrirsjáanlegt. Ég hef alveg áhyggjur af því að einkaneysla hafi ekki sagt sitt síðasta. Svo eru það þessir erlendu skellir sem við verðum fyrir.

En ég held að við höfum vonandi lagt grunn að stöðugleika þegar kemur fram á næsta ár, það er allavega mín von.“