Kaupendur Tesla Model Y bifreiða á síðustu fjórum mánuðum nýliðins árs hefðu sín á milli getað sparað sér vel yfir hálfan milljarð króna hefðu þeir beðið með kaupin þar til í dag, þrátt fyrir að bæði vörugjöld og aukinn virðisaukaskattur hafi verið lagður á rafbíla nú um áramótin.
Bíltegundin var mest selda undirtegund allra bíla á landinu í fyrra – en 73% þeirra voru nýskráðir á áðurnefndu tímabili – auk þess að vera mest seldi bíll Evrópu og mest seldi rafbíll í Bandaríkjunum. Hér á landi voru 14,6% allra nýskráðra rafbíla í fyrra Model Y, og 23% ef horft er á síðasta ársþriðjunginn.
Tesla lækkaði verð bifreiða sinna verulega um allan heim á föstudag eftir að hafa hækkað þau ítrekað síðustu ár. Elon Musk forstjóri Tesla lét hafa eftir sér síðasta sumar að verð bifreiða rafbílaframleiðandans væri orðið „vandræðalega hátt“.
Frá september og út síðasta ár voru samkvæmt Samgöngustofu nýskráðar 764 Tesla Model Y bifreiðar. Það er tæpur fjórðungur allra rafbíla á tímabilinu og yfir helmingur allra nýskráðra Tesla á árinu, þar af tæpir þrír af hverjum fjórum Model Y bílum.
Þess skal getið að þeir sem áttu bíl í pöntun en höfðu ekki fengið hann afhentan þegar lækkunin kom til fengu að njóta hennar þrátt fyrir að hafa pantað á hærra verði.
Lækkunin frá ríflega 400 þúsund upp í 1,4 milljón
Fyrir liggur að verð bílanna var óbreytt á áðurnefndu tímabili, og þar sem það er ekki umsemjanlegt hjá Tesla hefur hver kaupandi Long range bíls greitt rétt tæpum 900 þúsund krónum hærra verð en til boða stendur í dag. Mun minna munar á Performance-útfærslunni eða 426 þúsund krónum, en á móti enn meiru á grunntýpunni sem var tæpum 1,4 milljónum króna dýrari.
Í gögnum Samgöngustofu kemur ekki fram um hvaða útfærslur er að ræða, en samkvæmt heimildum blaðamanns hefur Long range-útfærslan verið langtum vinsælust. Sé gert ráð fyrir að jafn margir afhentu bílanna í fyra hafi verið í grunnútfærslu og Performance hefðu kaupendurnir sparað sér 685 milljónir króna á því að kaupa þá í dag óháð hlutfalli Long range í sölutölunum, en jafnvel þótt annar hver bíll hefði verið Performance og restin jafnskipt milli hinna tveggja væri talan rétt um 600 milljónir.
Lágmarksvörugjald og lægra þak virðisaukaskattleysis
Rafbílar hafa ásamt öðrum vistvænum bílum verið undanþegnir vörugjöldum fyrir bifreiðar allt frá því þeir komu á markaðinn svo nokkru nam fyrir um áratug síðan. Þess til viðbótar voru þeir á síðasta ári undanþegnir virðisaukaskatti upp að 6,5 milljónum króna.
Samhliða örri fjölgun rafbíla hér á landi síðustu ár hefur ríkið orðið af verulegum tekjum vegna þessara ívilnana. Til að bregðast við því var nú um áramótin sett 5% lágmarks vörugjald á alla bíla óháð orkugjafa eða losun.
Því til viðbótar var hámark undanþágunnar frá virðisaukaskatti lækkað um milljón krónur í 5,5 milljónir. Með því þrefaldast sem dæmi greiddur virðisaukaskattur af 7 milljóna króna rafbíl þar sem skattstofninn fer úr hálfri milljón í eina og hálfa. Allir bílar sem kosta yfir 6,5 milljónir og fullnýttu þannig heimildina fyrir áramót hækka við þetta um 240 þúsund krónur.