Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hefja undirbúning á sölu á hlut í Landsbankanum svo útboð á hlut ríkisins í bankanum geti farið fram fljótt í kjölfar sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
„Þannig væri unnt að draga enn frekar úr opinberu eignarhaldi í bankakerfinu hérlendis,“ segir í umsögn ráðsins við frumvarpsdrögum fjármálaráðherra að breytingum á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka, þar sem kynnt er fyrirkomulag næsta Íslandsbankaútboðs.
Erindi Arion eigi ekki að hafa áhrif á söluna
Viðskiptaráð fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að ljúka sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Ráðið hvetur stjórnvöld til að ljúka söluferlinu samkvæmt því uppleggi sem kynnt er „eins fljótt og auðið er“.
Ráðið segir að erindi Arion banka til Íslandsbanka um áhuga á viðræðum um sameiningu bankanna eigi ekki að hafa áhrif á áform ríkisins um að selja eftirstandandi hlut sinn í Íslandsbanka.
„Fari slíkar sameiningarviðræður í gang flokkast þær sem hluti af tilraunum bankanna sjálfra til að auka hagkvæmni í sínum rekstri. Opinbert eignarhald er ekki síður óheppilegt við þær aðstæður frekar en almennt. Eðlilegra er að aðkoma stjórnvalda að því ferli sé einvörðungu í gegnum þar til bæra eftirlitsaðila.“
Fá ríki jafn umsvifamikil á bankamarkaði
Viðskiptaráð segir bankarekstur eiga það sameiginlegt með öðrum atvinnurekstri á samkeppnismarkaði að vera áhættusamur. Vísað er í hvítbók stjórnvalda um fjármálakerfið þar sem taldir eru upp áhættuþættir sem einkenna fjármálafyrirtæki og bent á hvernig þeir geti haft áhrif á rekstur þeirra.
„Með því að binda fjármuni skattgreiðenda í bankarekstri er þessi áhætta sett á herðar almennings og hann látinn bera tjónið við næstu skakkaföll.“
Þá sé opinbert eignarhald á fyrirtækjum í atvinnurekstri óheppilegt þegar kemur að hagræðingu, framþróun og öðrum þáttum sem stuðla að framleiðnivexti og gagnast þannig bæði viðskiptavinum bankanna og samfélaginu í heild.
„Fá ríki eru jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera á bönkum. Brýnt er að mati ráðsins að bæta úr þeirri stöðu með því að draga úr opinberu eignarhaldi í bankakerfinu.“
Kauphöllin telur fyrirkomulagið heppilegt
Þrjár umsagnir bárust í umsagnarferlinu, þar á meðal frá Kauphöllinni sem telur að sala á eignarhlut ríkisins með almennu útboði eins og lagt er til í frumvarpinu sé heppileg.
„Slíkt fyrirkomulag er gagnsætt og stuðlar að trausti eins og nauðsynlegt er þegar sýslað er með eigur ríkisins. Einnig hleypir hún hámarksfjölda fjárfesta að borðinu og er því til þess fallin að tryggja ríkinu sanngjarnt verð fyrir hlut sinn,“ segir í umsögn Kauphallarinnar.
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um frumvarpsdrögin í síðustu en í stuttu máli felst breytingin í því að bætt er við nýrri tilboðsbók C fyrir tilboð yfir 300 milljónir króna. Í bók C, sem er ekki síst ætlað að ná til erlendra fagfjárfesta, verður tekið við tilboðum í kjölfar markaðsþreifinga fyrir útboð.
Kauphöllin gerir í grundvallaratriðum ekki athugasemdir við útfærslurnar sem lagðar eru til í frumvarpinu en þykir þó að skýra mætti betur í greinargerð forgang í úthlutun til tilboðsbóka A og B á kostnað tilboðabókar C.
Kauphöllinni hugnast markmið frumvarpsins um forgang almennings og að auka líkurnar á aðkomu stórra erlendra fagfjárfesta.
„Aukin þátttaka almennings og erlendra fjárfesta er bæði til þess fallin að styrkja Íslandsbanka sem almenningshlutafélag og íslenskan verðbréfamarkað og þar með fjármögnunarumhverfi íslenskra fyrirtækja almennt.“