Heildsalinn Core nýlega út maíssnakk sem ber heitið Naís en varan er svipuð og PopCorners sem fyrirtækið bauð áður upp á. Nú þegar hafa tvær tegundir verið gefnar út en ný tegund kemur á markað á föstudaginn.
Arnar Freyr Ársælsson, markaðsstjóri Core, segir í samtali við Viðskiptablaðið að viðbrögðin hafi verið frábær og sé fyrirtækið í raun í erfiðleikum með að anna eftirspurninni.
„Það eru náttúrulega áramót fram undan og svo fórum við líka í stóra markaðsherferð á samfélagsmiðlum. Þarna ertu líka með vöru sem fólk þekkir og þú finnur heldur ekkert aðra svona vöru á markaðnum.“
Core, sem er hvað þekktast fyrir að selja koffíndrykkinn Nocco, byrjaði að flytja inn poppsnakkið PopCorners árið 2007 og var varan lengi eitt af aðalvörumerkjum fyrirtækisins. Árið 2019 kaupir PepsiCola síðan vörumerkið á heimsvísu og þá breyttust aðstæður.
„Það átti í raun ekkert að breytast þar sem við vorum búin að standa okkur svo vel, en svo verða einhverjar áherslubreytingar hjá PepsiCola þannig við þurftum að afhenda Ölgerðinni vörumerkið.“
Ölgerðin tók við PopCorners árið 2021 en svo gerðist það að varan hvarf af markaði.
„Síðan þá höfum við verið að leita að samskonar vörum en við erum mjög heilsumiðað fyrirtæki. Við fórum svo að þróa þetta í eitt til tvö ár og þetta kom svo á markað fyrir þremur vikum.“
Arnar segir að verslanir séu gríðarlega ánægðar með það að Naís sé að seljast vel strax í byrjun. Varan er líka sú fyrsta sem Core framleiðir en fyrirtækið hefur hingað til aðallega séð um að flytja inn vörur.
„Þetta er fallegt vörumerki og við búumst bara við góðu gengi þegar Cheddarinn kemur í verslanir á föstudaginn. Fólk getur nú haft það naís öll kvöld án þess að fá samviskubit.“