Olís, dótturfélag Haga, og Festi hafa komist að samkomulagi um að hefja undirbúning sölumeðferðar á eignarhlutum félaganna í Olíudreifingu ehf.
Olíudreifing er alfarið í eigu félaganna tveggja en Festi fer með 60% hlut og Olís með 40%.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu sér Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka um söluferlið.
Heildarvelta Olíudreifingar nam um 5,5 milljörðum króna sem var um 4% aukning á milli ára.
Félagið hagnaðist um tæplega 343 milljónir á síðasta reikningsári sem er lækkun úr 532 milljónum árið áður.
Eignir félagsins voru bókfærðar á rúma 4,9 milljarða og var eigið fé 2,4 milljarðar.
Sölumeðferð þriggja félaga í skoðun
Festi og Hagar greindu frá því í desember í fyrra að þau væru að kanna framtíðarmöguleika hvað varðar eignarhluti félaganna í Olíudreifingu ehf., Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli ehf. (EAK) og EBK ehf.
Í apríl var síðan greint frá því að félögin ákvæðu að hefja undirbúning sölumeðferðar á eignarhlutum félaganna í Olíudreifingu, EAK og EBK.
Festi og Hagar fara hvor um sig með 33,3% hlut í EAK og 25% hlut í EBK.
Um er að ræða mikilvæg innviðafélög hvað varðar birgðahald og dreifingu á eldsneyti á Íslandi.
Meginstarfsemi Olíudreifingar er birgðahald og dreifing á eldsneyti um land allt en meginstarfsemi EAK og EBK er birgðahald og dreifing á flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli.