Bretar og Indverjar hafa tilkynnt að löndin tvö muni hefja fríverslunarviðræður á ný í dag, rúmlega ári eftir að hlé var gert á viðræðum vegna kosninga í báðum löndum. Viðræður hafa staðið yfir síðan 2022 en samkomulag hefur enn ekki náðst.
Jonathan Reynolds viðskiptaráðherra Bretlands er staddur í Nýju Delí þar sem hann mun eiga tveggja daga fund með indverska ráðherranum Piyush Goyal.
Hann segir að það sé augljóst fyrir Breta að sækjast eftir fríverslunarsamningi við Indland en því er spáð að Indland verði þriðja stærsta hagkerfi heims eftir nokkur ár. Deilupunktar hafa hins vegar snúist um háa tolla á skosku viskíi og vegabréfsáritunarreglur fyrir indverska námsmenn.
Þetta verða jafnframt fyrstu viðræður milli Breta og Indverja frá því að Verkamannaflokkurinn komst til valda í Bretlandi og segir Reynolds að samkomulag sé forgangsverkefni fyrir nýju ríkisstjórnina.
Fyrir indversku ríkisstjórnina hafa þessar fríverslunarviðræður einnig fengið á sig nýja hlið eftir ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að leggja gagnkvæma tolla á innfluttar vörur frá Indlandi.