Uppbygging landeldisstöðvar First Water í Þorlákshöfn er hafin af fullum krafti. Fyrsta skóflustungan að nýju vinnsluhúsi á Laxabraut var tekin í síðustu viku en stefnt er á að húsið, sem verður alls 30.500 fermetrar að stærð, verði tekið í notkun í skrefum.
„Við gerum ráð fyrir því að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs. Við erum búin að vinna jarðvinnuna og núna erum við í útboði á bæði búnaði og á húsinu sjálfu,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water.
„Þetta eru sex fasar hjá okkur og það má segja að tveir fasar saman kalli á ákveðna vinnslu. Þegar við erum búin með fjóra fasa þá yrði tækjabúnaðurinn alltaf meiri og meiri. Við byrjum að byggja vinnslustöðina á næsta ári og í rauninni verður húsið tilbúið 2027, en starfsemi í húsinu myndi síðan vaxa alveg til 2030 og árin þar eftir meðan við erum að fá uppskeruna út úr eldinu í auknum mæli.“
Fyrstu uppskeru lauk með slátrun 50 þúsund laxa í maí 2023. Í október sl. var þúsundasta tonninu á árinu slátrað hjá First Water og hafði uppskeran þá aukist um hátt í 60% frá árinu 2023. Stefnt er á að 50.000 tonna landeldisstöð verði byggð upp í 6 fösum og verði komin í fulla vinnslu árið 2029.
Alls mun laxeldi fara fram í 160 körum þegar stöðin er komin í fullan rekstur en eins og er hafa 20 kör verið reist. Í hverjum fasa er miðað við að 26 kör bætist við en 8 eru byggð í einu og síðan eru þau teknin í notkun. Áætlanir fyrir framkvæmdirnar haldist í helstu atriðum þrátt fyrir smávægilega hnökra, til að mynda hvað varðar afhendingu erlendis frá.
„Svo er þetta eins með allar framkvæmdir, stundum tefjast þær aðeins. Það er ekki algengt að fólk byggi hraðar en stefnt er að.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild hér.