Íslandsbanki kann að hafa gerst brotlegur gegn ákvæðum laga sem gilda um bankann og starfsemi hans við framkvæmd sölu á 22,5% hlut í bankanum í mars á síðasta ári. Þetta kemur fram í frummati fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) en eftirlitið hefur verið með framkvæmdina til athugunar frá því á síðasta ári.

Greint er frá þessu í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar sem birt var fyrir skömmu.

Í tilkynningunni segir að í frummatinu sé athygli vakin á heimildum FME til að leggja á stjórnvaldssektir og ljúka málinu með sátt. Sáttarferli sé hafið og bankinn muni á næstu vikum setja fram skýringar sínar og sjónarmið við frummati FME.

„Stjórnendur bankans taka frummat FME alvarlega. Eins og áður hefur verið greint frá hefur bankinn þegar gert breytingar á innri reglum og ferlum og mun halda slíkri vinnu áfram í sáttarferlinu,“ segir að lokum í tilkynningu Íslandsbanka.