Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur fallist á beiðni smásölusamstæðunnar Festi um að hefja formlegar sáttaviðræður um hvort unnt sé að að ljúka rannsókn eftirlitsins á ætluðum brotum fyrirtækisins með sátt.

Þetta kemur fram í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar.

Tilkynnt var í lok síðasta árs að SKE hefði sent Festi andmælaskjal vegna ætlaðra brota á skilyrðum sáttar frá miðju ári 2018 í tengslum við samruna Festi og N1. Frummat SKE var að meint brot Festi hafi verið alvarleg og að til álita komi að beita viðurlögum.

Kunni að leiða til sektar

Í tilkynningu sem Festi sendi frá sér í kringum sexleytið í dag segir að með sáttaviðræðunum sé leitað leiða til að bregðast með ásættanlegum hætti við þeim aðgerðum félagsins sem lýst er í andmælaskjali SKE.

„Náist niðurstaða í sáttaviðræðunum mun það fela í sér endanlegar lyktir gagnvart Festi hf. á þeirri rannsókn og málsmeðferð sem lýst er í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins. Festi hf. gerir sér grein fyrir að lyktir málsins kunna að fela í sér að félaginu verði gert að greiða sekt.“