Alvotech og samstarfsaðili þess Teva Pharmaceuticals hafa hafið sölu í Bandaríkjunum á Selarsdi (ustekinumab-aekn), líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara (ustekinumab), til meðferðar við miðlungs og alvarlegum skellusóra, sóraliðagigt, Chrons-sjúkdómnum og sáraristilbólgu.

Þetta er önnur hliðstæðan sem Teva og Alvotech setja á markað í Bandaríkjunum, en félögin hófu sölu á Simlandi (adalimumab-ryvk), líftæknilyfjahliðstæðunni í háum styrk með útskiptanleika við gigtarlyfið Humira í maí 2024.

Verður útskiptanlegt við frumlyfið í lok apríl

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur heimilað markaðssetningu á Selarsdi í sömu lyfjaformum og samþykkt eru fyrir frumlyfið Stelara.

Í tilkynningu Alvotech til Kauphallarinnar kemur fram að FDA hafi jafnframt tilkynnt að Selarsdi verði útskiptanlegt við frumlyfið Stelara, um leið og einkaréttur fyrstu hliðstæðunnar með útskiptanleika fellur úr gildi, í lok apríl næstkomandi.

„Markaðssetning Selarsdi er mikilvægur áfangi í samstarfi félaganna og jafnframt veigamikið skref í að draga úr lyfjakostnaði fyrir sjúklinga í Bandaríkjunum,“ segir Anil Okay, yfirmaður viðskipta hjá Alvotech.

„Sérhæfing okkar í þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða og einstök aðstaða þar sem allt ferlið er á einni hendi gerir okkur kleift að auka stöðugt framboð hágæða líftæknilyfja og þar með lækka kostnað í heilbrigðiskerfum um allan heim.“

Lyfjaformin sem heimiluð hafa verið fyrir Selarsdi eru 45 mg/0,5 mL og 90 mg/0,5 mL lausn í áfylltri sprautu, 45 mg/0,5mL lausn í hettuglasi og 130 mg/26 mL innrennslisþykkni í hettuglasi.