Alvotech og samstarfsaðili þess Teva Pharmaceuticals Ltd. tilkynntu í dag að sala væri hafin í Bandaríkjunum á Simlandi (adalimumab-ryvk), fyrstu líftæknilyfjahliðstæðunni í háum styrk með útskiptanleika við gigtarlyfið Humira sem hlotið hefur markaðsleyfi frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA).

„Það er mikil ánægja að geta boðið sjúklingum í Bandaríkjunum upp á Simlandi. Við hlökkum til þess að halda áfram að auka framboð í Bandaríkjunum af hagstæðum hágæða líftæknilyfjahliðstæðum, þar sem þær geta dregið úr vaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu og fyrir sjúklinga,“ segir Anil Okay, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Simlandi er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan við Humira án sítrats og í háum styrk sem FDA hefur veitt markaðsleyfi með útskiptanleika, og fylgir því einkaréttur til að markaðssetja hliðstæðuna með útskiptanleika í styrkleikanum 40mg/0.4mL.

Líftæknilyfjahliðstæður við Humira í lágum styrk og hliðstæður í háum styrk eru þegar komnar á markað í Bandaríkjunum, en um 88% af ávísunum á adalimumab eru fyrir lyfið í háum styrk, samkvæmt gögnum sem safnað er af gagnaveitunni Symphony.

Fyrsti samstarfssamningur Alvotech og Teva var undirritaður í ágúst 2020. Þá var samið um sölu og markaðsetningu fimm líftæknilyfjahliðstæða sem þróaðar verða og framleiddar af Alvotech.

Í ágúst á síðasta ári gengu félögin til aukins samstarfs og bættust tvær nýjar líftæknilyfjahliðstæður við samstarfið, auk nýrra útgáfa af tveimur hliðstæðum sem voru hluti af upprunalega samkomulaginu. Alvotech sér um alla þróun og framleiðslu, en Teva sér um sölu og markaðssetningu í Bandaríkjunum og nýtir þar með mikla reynslu og öflugt sölu- og markaðsnet. Simlandi er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan í samstarfinu sem kemur á markað.

Í apríl sl. veitti FDA markaðsleyfi fyrir Selarsdi (ustekinumab-aekn) sem líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara (ustekinumab) og verður hún önnur hliðstæðan í samstarfinu sem kemur á markað. Gert er ráð fyrir að sala á Selarsdi hefjist í lok febrúar á næsta ári. til viðbótar sem við ætlum að setja á markað fram til ársins 2027.