Margir innan ferðaþjónustunnar hafa undanfarna mánuði varað við alvarlegri stöðu og talað um samdrátt í greininni. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar, þar á meðal verðlag á Íslandi í samanburði við samkeppnislöndin.
Gísli Eyland, framkvæmdastjóri Tröll ferðaþjónustu, segir vissulega hægt að færa rök fyrir því að Ísland sé orðið dýrt í samanburði við svipaða aðfangastaði. Það eigi þó meira við um gistingu og bílaleigu, en sé minna sýnilegt í afþreyingu. Reynslan sýni jafnframt að ef slaki myndast á markaðnum þá geti verðlagning breyst hratt.
„Þegar þú nærð ákveðinni hagkvæmni í rekstrinum þá skilar það sér að einhverju leyti til viðskiptavina í verðlagningu. Það er gígantísk samkeppni á þessum markaði, það eru fáir aðilar og kannski fáar vörur þar sem þú ert með einhvern einn aðila sem er algjör verðvaldur. Menn eru rosalega fljótir að aðlaga sig að öðrum,“ segir Gísli.
Tröll hafi gert gott mót og segir Gísli útlit fyrir að uppsveifla sé komin aftur þar sem góður taktur er í bókunum. Þá er veturinn stórt tímabil fyrir félagið.
„Þannig við erum bara frekar bjartsýn eins og þetta lítur út núna. En til þess að stuðla að áframhaldandi vexti þá þurfum við að horfa áfram. Við vöxum ekki endalaust á þessu vöruframboði sem við erum með í dag, við þurfum að horfa á nýjar vörur og þjónustu til að bjóða upp ef við ætlum að auka hlutdeild,“ segir Gísli.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.