Tröllin hófu göngu sína árið 2016 og sóttu fljótlega í sig veðrið en árið 2023 var langstærsta ár félagsins til þessa.
Tröll ferðaþjónusta velti tæplega þremur milljörðum króna í fyrra, samanborið við tvo milljarða árið 2022. Þá tvöfaldaðist hagnaður milli ára, nam 223 miljónum árið 2023, samanborið við 112 milljónir árið áður.
Gísli Eyland tók við sem framkvæmdastjóri Tröll ferðaþjónustu um mánaðarmótin en fram að þeim tíma hafði stofnandinn Ingólfur Ragnar Axelsson verið framkvæmdastjóri. Gísli var áður forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Sýn og þar áður viðskiptaþróunarstjóri Travelshift.
„Ég þekkti Tröll ágætlega fyrir og þetta hafa verið áhugaverðir fyrstu dagar, ferðamannabransinn er ótrúlega dýnamískur,“ segir Gísli um nýja hlutverkið.
„Þó að það sé mikið búið að fjalla um það núna að fólki finnist vera einhver ládeyða að koma, þá held ég að framtíðin sé mjög björt í bransanum. Þetta er mjög kvikur markaður og þá sérstaklega hvað varðar eftirspurn, það sem er vinsælt hjá ferðamönnum getur breyst rosalega mikið á milli ára. Þannig að maður þarf bara að vera á tánum.“
Samhliða vexti hafa nýir vöruflokkar bæst við, svo sem eigin hótelrekstur. Markmið þeirra sé að skapa Tröll ákveðna sérstöðu sem vörumerki og eru nýjungar sífellt til skoðunar.
„Bæði hvað varðar vörur almennt og líka í staðsetningum og annað, það eru alls konar tækifæri til að gera betur og búa til fallegar og flottar vörur. Um þetta snýst leikurinn, að búa til þjónustur og vörur sem að mæta eða fara fram úr væntingum viðskiptarvinarins,“ segir Gísli.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.